Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja tók fyrir á fundi sínum í vikunni umsókn frá ÍBV-íþróttafélagi um að steypa undirstöður fyrir hljóðskúr sem er í brekkunni hjá Brekkusviðinu í Herjólfdal. Einnig var sótt um að lengja Veltusund til austurs og slétta það svæði.
Í umsókninni segir: ÍBV-íþróttafélag óskar eftir leyfi til þess að reisa steyptan vegg undir hljóðskúr sem nýttur er á Þjóðhátíð. Fyrir hátiðina 2024, fjárfesti félagið í nýjum hljóðskúr þar sem sá gamli var kominn til ára sinna. Nýji hljóskúrinn er töluvert stærri en sá gamli var og því parf öflugri undirstöður. Svæðið þar sem hljóðskúrinn er nýttur, neðst í brekkunni í Herjólfsdal, er ekki fallegt dag. Við teljum að það væri fegrun á svæðinu að reisa myndarlegan vegg.
Einnig teljum við að það sé tímabært að slétta út “Veltusundið”. Mikil eftirspurn var eftir tjaldstæði fyrir hvít tjöld á Þjóðhátíð 2024. Svo mikil var eftirspurnin að þjóðhátíðarnefnd þurfti að koma fyrir tjöldum á milli Ástarbrautar og Veltusunds. Einhver óánægja skapaðist vegna plássleysis og telur þjóðhátíðarnefnd að nú sé lag að slétta út Veltusundið þar sem eftirspurn er orðin mikil en plássið lítið. Það væri afar leiðinlegt að þurfa að vísa fólki frá vegna plássleysis. Við viljum að allir geti notið hátiðarinnar með fölskyldu sinni í hvítu tjaldi. ÍBV-íþróttafélag óskar eftir því að Vestmanneyjabær slétti út Veltusundið fyrir Þjóðhátíð 2025, segir í erindinu sem Ellert Scheving Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV kvittar undir.
Ráðið samþykkti erindið og fól starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs eftirlit með verkinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst