Staða á bátakosti Vestmannaeyjahafnar var eitt af erindum sem framkvæmda- og hafnarráð tók fyrir á fundi sínum í gær. Dóra Björk Gunnarsdóttir, hafnarstjóri fór yfir bátakost hafnarinnar á fundinum.
Fram kemur í fundargerð að fyrirliggjandi verkefni séu þess eðlis að núverandi bátakostur getur ekki leyst þau s.s. þjónusta brunnbáta í Viðlagafjöru og móttöku ekjufraktskipa. Hafnarstjóri leggur áherslu á mikilvægi þess að leita verði að 10 tonna dráttarbát til að fjárfesta í sem fyrst til þess að hægt sé að sinna þeim verkefnum sem eru fyrirliggjandi og eru fyrirsjáanleg með auknum umsvifum. Nýr bátur myndi einnig taka verkefni af Lóðsinum eins og flutning hafnsögumanna sem myndi skila sér í minna kolefnisspor.
Ráðið vísaði málinu til umræðu í bæjarráði þar sem ljóst er að ef til ákvörðunartöku kemur varðandi bátakaup þarf að fara í viðauka. Þá fól ráðið hafnarstjóra að kanna með leigu á bát sem getur leyst fyrirliggjandi verkefni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst