Bilun í glussakerfi á nýjum Herjólfi olli því að ekki var hægt að opna afturhlera skipsins nú fyrir stundu. Brugðið var til þess ráðs að snúa skipinu og hleypa bílunum út að framan. Ekki vildi hins vegar betur til en svo að hlerinn sem á að tengjast við landbrúnna náði ekki alla leið og því ekki hægt að keyra þar yfir.
Samkvæmt Guðbjarti Ellerti Jónssyni, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf er vandamálið stýring í glussakerfinu sem ekki fæst á landinu og þarf því að senda til landsins með hraðflutningum. Verið er því að undirbúa Herjólf III til brottfarar til Landeyjahafnar. Mun hann klára þær ferðir sem eftir eru í dag og jafnvel sinna áætlun næstu daga á meðan beðið er eftir varahlutum í þann nýja. “Það er alveg viðbúið að einhverjir hnökrar séu á nýjum skipum og því nauðsynlegt að hafa gamla skipið til taks. Vélstjórar skipsins eru að fara yfir vandamálið í glussakerfinu í þessum töluðu orðum og ætti það að skýrast fljótlega hvort við náum að komast fyrir vandann tímabundið án þessa varahluts,” sagði Guðbjartur í samtali við Eyjafréttir rétt í þessu. “Það er fyrir mestu að við höfum gamla skipið til taks og getum því brugðist við þeim vandamálum sem upp koma án þessa að þurfa riðla áætlun mikiið og áfram siglt sjö ferðir á dag.”
Í þessum orðum skrifuðum er “sá gamli” á leið til Landeyjahafnar og komust allir bílar með sem pantað áttu. Það mátti þó ekki tæpara standa. “Sá nýji” hefur hins vegar náð að opna aftur hlerann og lagst að bryggju til að hleypa út þeim bílum í land sem í honum sátu fastir.
Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta var á bryggjunni og fylgdist með gjörningnum.
Uppfært 20.00: Nýji Herjólfur hefur tekið við nýju og mun klára áætlun dagsins
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst