Varðskipið Óðinn, fyrsta safnskip Íslendinga, kemur til Vestmannaeyja að morgni goslokadagsins 3. júlí í tilefni Goslokahátíðar 2023. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, kemur með skipinu frá Reykjavík.
Guðmundur Hallvarðsson, formaður Hollvinasamtaka Óðins, segir að varðskipið sigli inn í Vestmannaeyjahöfn kl. 9.40 á mánudagsmorgun og mæta Herjólfi á leiðinni. Skipin munu heilsast með skipsflautum á ytri höfninni. Innan hafnargarða verður hleypt af þremur púðurskotum, heiðursskotum.
Óðinn leggst síðan að Básaskersbryggju kl. 10.00. Fulltrúar bæjarstjórnar munu stíga á skipsfjöl og heilsa forseta Íslands og Vilberg Magna Óskarssyni skipherra.
Varðskipið Þór er einnig væntanlegt til Vestmannaeyja á mánudag og verða bæði varðskipin almenningi til sýnis við Nausthamarsbryggju kl. 18-21 og aftur daginn eftir kl. 10-14. Gert er ráð fyrir því að skipin fari frá Eyjum á þriðjudagskvöld.
Varðskipið Þór kemur aftur laugardaginn 8. júlí og verður almenningi til sýnis kl. 13.00-16.00 við Nausthamarsbryggju.
Varðskipið Óðinn var sent til Vestmannaeyja 23. janúar 1973 og var í ferðum milli Þorlákshafnar og Eyja til 7. mars það ár. Skipið flutti meðal annars iðnaðarmenn og byggingarefni, eins og plötur sem negldar voru fyrir glugga, til Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst