Í kjölfar umræðu um að nemendur í verkdeild Grunnskóla Vestmannaeyja fái færri kennslustundir en aðalnámskrá gerir ráð fyrir, svarar Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, gagnrýni og ábendingum. Hann segir að frávikin byggist á faglegu mati skólastjórnenda, kennara, sérfræðinga og foreldra, og að unnið sé að því að bæta þjónustuna.
Aðspurður um ástæður þess að börn í verkdeild fái aðeins um 27 kennslustundir af kennslu á viku, færri kennslustundir en reglur segja til um, segir Jón að ákvörðunin byggi á mati skólastjórnenda, kennara, sérfræðinga og foreldra. „Nemendur í verkdeild ráða illa við lengri tíma, og því hefur kennslumagn verið takmarkað við tímann frá 8:20 til 12:40 alla daga,“ útskýrir hann. Forráðamenn samþykkja frávikið formlega með undirritun einstaklingsnámskrár.
„Vikulegur kennslutími nemenda í grunnskóla er tilgreindur í mínútum en oft umbreyttur í kennslustundafjölda sem miðast við 40 mínútur. Hjá nemendum í 1. – 4. bekk eru þetta 30 kennslustundir (1.200 mínútur), í 5. – 7. bekk eru það 35 kennslustundir (1.400 mínútur) og í 8. – 10. bekk eru það 37 kennslustundir (1.480 mínútur). Heimilt er að víkja frá vikulegum lámarkskennslutíma, en nemendum skal þá tryggð viðbótarkennsla sem nemur frávikinu innan sama skólaárs.
Telji forráðamenn barns, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barn fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum kennslutímum vegna viðurkenndra frávika geta foreldrar sótt um að barnið fái sérúrræði innan skólans og er svokölluð verkdeild eitt slíkt úrræði. Slíkt úrræði er einungis veitt eftir ítarlegt mat sérfræðiþjónustu skóla og í samráði og upplýstu samþykki forráðamanna. Ítarleg einstaklingsáætlun er sett upp varðandi stuðning í námi og kennslu í samræmi við metnar sérþarfir nemanda. Áætlunin tekur til heildarskipulags náms og stuðnings við nemandan og í vissum tilfellum tekur tillit til annarar þjónustu við nemendur með fötlun.”
Þessu tengt: Fatlaðir fá 27 kennslustundir – Eiga rétt á 37
Jón segir að þrátt fyrir þetta sé unnið að úrbótum. „Engar athugasemdir hafa áður komið upp varðandi þetta fyrirkomulag en sjálfsagt að skólastjórnendur bregðist við ábendingum.” Hann segir nemendur í 8.–10. bekk fái í vetur valgreinatíma sem eru aðlagaðir eftir einstaklingsþörfum, og nú sé einnig verið að skoða leiðir til að bæta við kennslustímum fyrir nemendur á miðstigi sem eru í sérúrræði eins og verkdeild.
Um 3–5% grunnskólabarna þurfa á sérúrræðum að halda innan skólans, en mun fleiri fá einhvers konar sérstuðning. „Alls fá um 15–18% barna einhvers konar sérstuðning, og um 18% af heildarúthlutuðum kennslustundum í skólanum fara í sérúrræði og sérstuðning,“ segir Jón. „Þetta eru einstaklingar með misjafnar þarfir sem þarf að mæta í nánu samstarfi við þá sjálfa og foreldra.“
Þegar Jón er spurður hvort skortur á kennurum eða sérkennurum hamli því að bjóða upp á fullan fjölda kennslustunda, svarar hann að það hafi ekki verið meginástæðan. Erfitt hafi þó verið að halda uppi stöðugri þjónustu vegna sveiflna í þjónustuþörfinni. „Sveitarfélagið hefur lagt sig fram við að setja upp einstaklingsmiðaða þjónustu þegar þörfin kallar á,“ bætir hann við.
„Vestmannaeyjabær býður upp á eftirskólaúrræði fyrir börn með sérþarfir ef ósk og þörf hefur komið upp. Slíkt úrræði tekur þá við eftir kl. 12:30 og er til kl. 16. Lengd viðvera er í félagsmiðstöðinni við Strandveg og unnin í samvinnu við Frístundaverið og Félagsmiðstöðina. Boðið er upp á akstursþjónustu. Erfitt hefur verið að halda uppi stöðugri þjónustu vegna sveiflu í þjónustuþörfinni en sveitarfélagið hefur lagt sig fram við að setja upp einstaklingsmiðaða þjónustu þegar þörfin kallar á.”
Að lokum bendir Jón á að sérúrræði séu aðeins veitt eftir ítarlegt mat sérfræðiþjónustu skólans og í samráði við foreldra. Einstaklingsnámskrá er sett upp fyrir hvern nemanda og reglulega endurskoðuð. „Forráðamenn staðfesta námskrána með undirritun, og staðfesta um leið frávik frá aðalnámskrá,“ segir hann.
Fræðsluráð Vestmannaeyja fékk á fundi sínum í liðinni viku kynningu frá Jóni um fyrirhugað fyrirkomulag lengdrar viðveru fyrir fötluð börn á aldrinum 10–18 ára.
Fram kemur í fundargerðinni að um sé að ræða lögbundna þjónustu sem hingað til hefur verið veitt með nokkuð ólíkum hætti, en á síðustu árum hefur eftirspurn aukist og þörfin orðið meiri fyrir skipulegt form. Stefnt er að því að þjónustan verði staðsett í félagsmiðstöðinni við Strandveg, þar sem einnig verður sótt um stöðugildi til að sinna henni.
Mælt er með að rekstur og dagleg stjórnun verði í höndum félagsmiðstöðvarinnar. Fræðsluráðið þakkar kynninguna og leggur áherslu á mikilvægi þess að þessi þjónusta komist í fast form. Ráðið fól framkvæmdastjóra sviðs að fylgja málinu eftir innan stjórnsýslunnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst