Marinó Sigursteinsson, betur þekktur sem Mari pípari, er skiltakarl Vestmannaeyja eins og Kári Bjarnason orðaði það í aðfaraorðum sínum. Tilefnið var afhjúpun skiltis, á þriðjudeginum 4. júlí, um fuglamerkingar Óskar Sigurðssonar í Höfðanum þar sem áhugasamir geta lesið um hið einstæða afrek Óskars og hvaða aukna þekkingu það hefur fært okkur um þá fugla sem hér eiga heimkynni hluta af árinu.
Skiltið er einkar fallegt, sett upp á stóran og gerðarlegan stein við hliðið þar sem gengið er inn um í áttina að útsýniskofanum þar sem á góðum degi má líta stærsta lundavarp heimsins.
Í aðfaraorðum Kára kom fram hversu mikilvægt starf Mara er fyrir bæjarfélagið, að eiga slíkan máttarstólpa sem leggur fram ómælda fjármuni og tíma til að gefa öllum sem eru á ferð um eyjuna fögru tækifæri til að kynnast nærsögunni er ómetanlegt. Að gera söguna aðgengilega á staðnum er lífshlutverk Mara, gjöf hans til samfélagsins.
Mari er aldeilis ekki hættur. Strax daginn eftir var afhjúpað nýtt skilti hans á útsýnispallinum um Flakkarann, fjallið sem fór á hreyfingu í eldgosinu.
Skiltin sem Mari hefur kostað og séð um að koma upp á völdum stöðum um Vestmannaeyjar eru upplýsingalindir fyrir hvern þann sem er á ferðalagi um Eyjuna og Eyjabúar standa í ævarandi þakkarskuld við þennan einstaka mann.
Óskar og Mari við skiltið góða.
Mynd Addi í London.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst