Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir nánast fullfermi í byrjun vikunnar. Vestmannaey landaði á mánudag á Akureyri en Bergey á þriðjudag í heimahöfn. Rætt er við skipstjórana á vef Síldarvinnslunnar og eru þeir spurði frétta af aflabrögðum.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að veitt hefði verið fyrir austan land. „Við byrjuðum á að taka tvö hol á Glettinganesflaki og síðan var haldið á Brettingsstaði. Þarna fengum við góðan fisk sem var gjarnan um 3 kg. og þarna var hann að éta. Hann var úttroðinn af loðnu þannig að það er eitthvað af henni á þessum slóðum. Það gerði vitlaust veður og þá var haldið til Akureyrar. Að lokinni löndun var Vestmannaey tekin í slipp en það þurfti að lagfæra stýrið. Lagfæringin tók stutta stund og haldið var til veiða á ný síðdegis á miðvikudag,” sagði Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að veitt hefði verið suður af landinu. ”Þetta var brælutúr, norðanátt og helvítis læti. Við byrjuðum á Litladýpi og þar fékkst ýsa í björtu en það var hins vegar lítið að hafa í myrkrinu. Þá var haldið á Ingólfshöfðann og tekin nokkur hol þar. Þar fékkst dálítið af þorski. Reynt var við ýsu í Meðallandsbugt með litlum árangri og síðan endað á Pétursey og Vík þar sem var þorskkropp,” sagði Jón.
Bergey hélt á ný til veiða á miðvikudagskvöld, segir að lokum í fréttinni.