„Staðan í íslenskum stjórnmálum er snúin og hefur verið það um dágóða hríð. Það hefur engum dulist að ríkisstjórnarsamstarfið hefur gengið brösuglega og stjórnarflokkarnir ekki náð saman um mikilvæg mál sem brenna á íslensku samfélagi. Það er fáheyrt að einn ríkisstjórnarflokkur álykti á landsfundi sínum um væntanleg endalok ríkisstjórnarinnar auk þess sem sami flokkur hafði gefið út opinberlega að hann myndi ekki standa við samkomulag um áframhaldandi breytingar í útlendingamálum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi.
„Svo fór um um síðastliðna helgi að forsætisráðherra tilkynnti um leiðarlok þessarar ríkisstjórnar og ég held að sú ákvörðun hafi verið þjóðinni fyrir bestu. Valdið liggur hjá kjósendum og það er eðlilegt að ríkisstjórn í þessari stöðu þurfi að sækja sér endurnýjað umboð frá kjósendum.
Ég er bjartsýnismanneskja að eðlisfari og horfi með jákvæðum augum á komandi kosningar vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra stefnu og trausta sýn á framtíðina. Grunngildi Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsfrelsið, að standa vörð um réttarríkið og skynsamlega efnahagsstjórn hafa reynst okkur vel og stuðlað að sterkari stöðu Íslands í heiminum.
Nú höldum við bjartsýn og full eldmóðs inn í snarpa kosningabaráttu. Ég hlakka til að hitta og eiga samtöl við kjósendur í Suðurkjördæmi á næstu vikum,“ segir Guðrún.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst