Vegagerðin: Beðið eftir glugga til dýpkunar
Alfsnes 06 24 IMG 5443 2
Álfsnesið við dýpkun við Landeyjahöfn. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Óvissa er enn um hvenær hægt verði að hefja dýpkun í Landeyjahöfn og þar með taka upp reglubundnar siglingar Herjólfs á ný. Eyjafréttir leituðu til G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, til að fá nánari upplýsingar um stöðuna og horfur næstu daga.

Samkvæmt Pétri hefur dýpið ekki verið mælt nýlega í höfninni, en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er gert ráð fyrir að dýpi í hafnarmynni og framan við höfnina sé um þrír metrar. Hann segir að ekki sé hægt að fullyrða nákvæmlega um dýpið nema með nýrri mælingu, en ljóst sé að talsvert vanti upp á að aðstæður teljist fullnægjandi fyrir siglingar Herjólfs.

Til þess að reglubundnar siglingar geti hafist að nýju þurfi dýpið að vera á bilinu fimm til sex metrar. Það jafngildi því að fjarlægja þurfi að jafnaði um 30 þúsund rúmmetra af efni við dýpkun.

Að sögn Péturs eru aðstæður til dýpkunar jafnframt háðar veðri og ölduhæð. Til að hægt sé að vinna þurfi ölduhæð að vera um eða undir 1,5 metrum. Samkvæmt núverandi veður- og ölduspám sé ekki útlit fyrir almennilegan dýpkunarglugga næstu daga. Þó sé gert ráð fyrir að aldan lækki eitthvað í kringum 22. desember, niður í um tveggja metra öldu, en hvort það dugi til að hefja dýpkun verði að koma í ljós þegar nær dregur.

Pétur staðfestir jafnframt að dýpkunarskipið sé tilbúið til notkunar og geti hafið störf um leið og aðstæður leyfa.

Sjá einnig: Ábending frá Herjólfi

Nýjustu fréttir

Elliði fyrir leikinn gegn Dönum
Spáð í spilin fyrir stórleikinn í kvöld á EM
Tíðarandi liðinna ára í myndum í Sagnheimum
Handbolti, loðnukvóti og prófkjör
Áskorun til Vestmannaeyinga 
Skipar sjö manna fagráð
Skráning stendur yfir í Lífshlaupið
Foreldrar Elliða stolt á leið til Danmerkur
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.