Þær Arna Hrund Baldursdóttir Bjartmars og Ragnheiður Perla Hjaltadóttir vinna sem hjúkrunarfræðingar á heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Arna og Ragnheiður halda saman úti Instagram reikningnum ,,Hjúkkur á eyju“, þar sem þær leyfa fylgjendum að skyggnast á bak við tjöldin og veita innsýn í störf hjúkrunarfræðinga.
Arna og Ragnheiður hafa báðar starfað sem hjúkrunarfræðingar frá árinu 2017 eða síðan þær útskrifuðust úr háskólanum það ár. Arna starfaði fyrst sem sjúkraliði, fór svo í hjúkrunarfræðina og kláraði nýlega nám í sjúkraflutningum. Ragnheiður fór hins vegar strax í hjúkrunarfræðina og hefur lokið diplóma í hjúkrun langveikra og viðbótarnámi í verkefnastjórnun. Hún ætlaði sér þó aldrei í hjúkrunarfræði, hún ætlaði í upphafi í hagfræði í háskólanum. Hún ákvað þó að lokum að skrá sig í inntökupróf í hjúkrunarfræði sem hún sér ekki eftir í dag enda hefur hún aldeilis fundið sig í faginu.
Landsbyggðarhjúkrun
Arna og Ragnheiður voru lengi búnar að ganga með þá hugmynd í maganum að stofna miðil til að fræða fólk og veita því innsýn í störf hjúkrunarfræðinga, þá sérstaklega á landsbyggðinni. Þar sem hjúkrun á minni einingum á landsbyggðinni getur verið töluvert ólík því sem gengur og gerist á stærri einingum eða á þéttbýlli stöðum.
Það sem gerir hjúkrun á landsbyggðinni frábrugðna hjúkrun á stærri stöðum er einna helst að hér eru ekki sérhæfð teymi og maður þarf að vera viðbúinn öllu, treysta á sjálfan sig, og standa á eigin fótum. ,,Hér í Vestmannaeyjum fáum við fjölbreytt tilfelli eins og t.d. alvarleg slys, veik börn, langveikt fólk og beinbrot. Smæð samfélagsins getur verið kostur og galli. Maður getur alltaf átt von á því að taka á móti nánum aðstandendum og það er auðvitað mjög erfitt. Á móti kemur að ef upp koma erfiðar aðstæður þá eru alltaf allir boðnir og búnir að hjálpa til.”
Önnur áskorun á landsbyggðinni er veður og færð. ,,Við þurfum stöðugt að velta fyrir okkur hvernig við komum bæði sjúklingum og sýnum frá okkur. Við höfum t.d. þurft að fá aðstoð frá björgunarbátnum Þór við flutninga þegar það er ekki flogið vegna veðurs. Við erum sífellt að meta í samráði við lækninn hvort og hvenær sjúklingur þarf sérhæfðari meðferð og við þurfum að senda hann frá okkur. Við höfum einnig þurft að nota ýmsar krókaleiðir til að fá hingað lyf eða aðrar nauðsynja vörur. Við þurfum stöðugt að vera á tánum hvað þetta varðar.”
Stelpurnar leystu af á dögunum á Kirkjubæjarklaustri og segja þær það hafa verið fjölbreytt og skemmtilegt ,,Við fórum á Klaustur á dögunum og sýndum frá starfinu þar á miðlinum okkar. Þar sinntum við fjölbreyttum störfum eins og rannsókn, heimahjúkrun, ungbarnavernd og sjúkraflutningum. Við vorum einnig á bakvakt og sinntum útköllum. Þetta var ótrúlega áhugavert og skemmtilegt, það er alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt og í raun nauðsynlegt í okkar starfi, við þurfum að halda okkur við með endurmenntun og nýjum og krefjandi áskorunum.“
Viðtökurnar góðar
Viðtökurnar við miðlinum hafa verið mjög góðar. Þær finna fyrir miklum áhuga frá fólki víðs vegar um landið og hefur það veitt þeim mikla hvatningu til að halda áfram að gera störf hjúkrunarfræðinga enn sýnilegri. Margir geri sér einfaldlega ekki grein fyrir hvað felst í störfum þeirra. Starf hjúkrunarfræðinga er fjölbreytt og krefjandi og allskonar atvinnutækifæri í boði, bæði hérlendis og erlendis. Hjúkrunarfræðingar starfa víðs vegar í þjóðfélaginu, meðal annars á sjúkrahúsum, heilsugæslu, í heimahúsum, í skólum og fyrirtækjum. Starf á legudeild er t.d. frábrugðið starfi á heilsugæslu eða í heimahjúkrun. Hér á sjúkradeildinni og heilsugæslunni í Eyjum tökum við á móti bráðveikum allan sólarhringinn. Engin dagur er eins og verkefnin síbreytileg.
Á döfinni
Stelpurnar munu halda áfram að sýna fylgjendum sínum frá starfstengdum verkefnum og lofa skemmtilegu og áhugaverðu efni. Þær eru nýkomnar af bráða ráðstefnu í Kaupmannahöfn sem þær sýndu frá, en einnig stefna þær á frekari námskeið og endurmenntun ásamt því að reyna að leysa af á fleiri stöðum á næstunni og sýna frá þeim fjölbreyttu verkefnum sem hjúkrunarfræðingar á landsbyggðinni fást við.
Góð þjónusta í Vestmannaeyjum
Tilgangur miðilsins er að gera landsbyggðarhjúkrun góð skil og að sýna að þar er unnið margþætt og öflugt starf utan höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið með miðlinum er einnig að hvetja nema í heilbrigðisgeiranum til að víkka sjóndeildarhringinn og prófa að koma út á land, hér fær maður mjög víðtæka reynslu. ,,Við hér í Vestmannaeyjum eigum fyrsta flokks viðbragðsaðila og hér er gott aðgengi að þjónustu. Við erum vel tækjum búin og hér er reynslumikið starfsfólk í hverju horni.”
Að lokum hvetjum við alla til að fylgja okkur á Instagram.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst