„Eftir fjölda áskorana og mikla umhugsun með mínum nánustu hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri, sem fram fer 31. janúar,” segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og ritari flokksins á Fésbókarsíðu sinni.
„Fyrir tveimur árum breyttist líf okkar fjölskyldunnar skyndilega þegar við þurftum að yfirgefa heimilið okkar í Grindavík. Við Silla settumst þá að í Reykjanesbæ – enda var bærinn fyrir löngu orðinn okkar annað heimili. Silla starfar á Keflavíkurflugvelli og sjálfur hef ég starfað bæði í lögreglunni á Suðurnesjum og verið þingmaður Suðurnesjamanna í 12 ár. Þetta er samfélag sem við þekkjum og samfélag sem þekkir okkur. Á þessum erfiðu tímum tóku bæjarbúar utan um fjölskyldu mína. Það var ekki sjálfsagt, en það var mannlegt og það gleymist aldrei,“ segir Vilhjálmur og áhugavert að hann telur sig ekki þingmann annarra hluta kjördæmisins.
Ekki er Vilhjálmur sáttur við stefnu núverandi meirihluta í Reykjanesbæ en hann hefur fulla trú á að hægt sé snúa dæminu við. „Reykjanesbær er ljósabær og ég trúi því af öllu hjarta að hér sé hægt að byggja upp samfélag þar sem allir fá að láta ljós sitt skína. Megináhersla næstu bæjarstjórnar verður að vera sú að tryggja að Reykjanesbær verði besti staður landsins fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.
Við þurfum ábyrgari rekstur sveitarfélagsins til að geta lækkað skatta á heimilin. Við þurfum skýra framtíðarsýn í skipulagsmálum sem virðir drauma fólks um eigið heimili og fjölbreytt búsetuform. Og við þurfum að setja börnin raunverulega í fyrsta sæti – með aðgengi að leikskólum, sterkum íþróttafélögum og bestu grunnskólum landsins.
Reykjanesbær er stórveldi og ég óska eftir stuðningi ykkar í prófkjörinu svo við getum saman tryggt að allir fái að láta ljós sitt skína. Nú brettum við upp ermar og hefjumst handa,“ segir Vilhjálmur sem ekki er einn um hituna.
Áður höfðu Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis og Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri Háaleitisskóli á Ásbrú, tilkynnt um framboð.