Í dag var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að hefja rannsóknir á jarðlögum og hafsbotni á fyrirhugaðri gangaleið milli lands og Vestmannaeyja. Flutningsmenn tillögunnar eru Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Þar segir að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta vinna þrepaskipta rannsókn á jarðlögum og hafsbotni á fyrirhugaðri gangaleið milli Heimaeyjar og Landeyja í samræmi við tillögur starfshóps innviðaráðherra um könnun á fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja sem komu fram í skýrslu hópsins haustið 2024 og í viðauka I við hana. Ráðherra upplýsi Alþingi um niðurstöður rannsóknarinnar eigi síðar en á vorþingi 2026.
Í greinargerð með tillögunni segir að innviðaráðherra hafi skipað starfshóp í september árið 2023 um könnun á fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. Niðurstaða starfshópsins, sem var kynnt haustið 2024, var sú að vinna þyrfti þrepaskipta rannsókn á jarðlögum og hafsbotni á fyrirhugaðri gangaleið áður en unnt væri að leggja fram nýtt mat á stofnkostnaði og fýsileika jarðganga. Í skýrslu starfshópsins segir að ávinningur af framkvæmdinni yrði mikill, ekki síst vegna mikils tímasparnaðar vegfarenda og aukinnar umferðar ferðamanna. Talið var að veggjöld gætu staðið undir kostnaði við mannvirkið í heild eða að hluta.
Auk ávinnings vegna tímasparnaðar og fjölgunar ferðamanna til Vestmannaeyja hefði mannvirkið margvísleg önnur jákvæð áhrif því að jarðgöng myndu tengja Suðurland og Vestmannaeyjar í eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Aksturstími um Vestmannaeyjagöng yrði um 20 mínútur en sigling frá Landeyjahöfn tekur um 75 mínútur með biðtíma. Tímasparnaður vegfarenda yrði því um klukkustund í hverri ferð. Ef siglt er til Þorlákshafnar bætist ein klukkustund við framangreindan ferðatíma og tímasparnaður vegfarenda yrði því enn meiri.
Árið 2024 flutti Herjólfur rúmlega 428.000 farþega. Eins og fjallað er um í skýrslu starfshópsins má með tilkomu jarðganga til Eyja gera ráð fyrir fjölgun ferðamanna. Ef fjöldi vegfarenda um göng yrði ein milljón manna á ári og ef miðað væri við að tímavirði hvers vegfaranda væri 3.000 kr. mætti meta heildartímasparnað á um 3 milljarða kr. á ári.
Starfshópurinn gerði ráð fyrir því að rannsóknir gætu kostað um 550 millj. kr. í heild. Áætluðum kostnaði er skipt í þrep. Fyrstu tvö þrepin gætu hvort um sig kostað 60 millj. kr., þriðja þrepið 80 millj. kr. og lokaþrepið 350 millj. kr.
Niðurstaða starfshópsins var sú að enn vantaði herslumuninn í rannsóknarvinnu og ekki væri unnt að eiga skynsamlega umræðu um fýsileika án frekari rannsókna um aðstæður til jarðgangagerðar. Í ljósi þess að rannsóknir af þessu tagi væru dýrar lagði starfshópurinn til að hafnar yrðu þrepaskiptar rannsóknir þannig að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort forsvaranlegt væri að ráðast í næstu rannsóknarþrep miðað við fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður hverju sinni.
Flutningsmenn telja að brýnt sé að niðurstöður fáist úr umræddum rannsóknum sem fyrst svo að hægt sé að taka ákvarðanir til framtíðar um samgöngukosti fyrir Vestmannaeyjar. Því leggja flutningsmenn til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verði falið að hefja þegar vinnu við að hrinda í framkvæmd rannsóknum á jarðlögum og hafsbotni á svæðinu með þeim hætti sem starfshópurinn lagði til.
Karl Gauti segir í samtali við Eyjafréttir að hann hafi boðið öllum þingmönnum kjördæmisins að vera með á tillögunni. Hann telur reyndar að þingmenn séu jákvæðir gagnvart því að fara í þessar þrepaskiptu rannsókn til þess að fá úr því skorið hvort þessi möguleiki sé raunhæfur.
Rétt er að rifja upp hvað forsvarsmenn framboðanna sem nú sitja á þingi sögðu um um málið í aðdraganda síðustu kosninga. Það má skoða hér.
Þessu tengt: Þarf að tryggja fjármagn til að ljúka rannsóknum á jarðgöngum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst