Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu fullfermi sl. laugardag í heimahöfn í Vestmannaeyjum.
Systurskipin lönduðu síðan aftur fullfermi í Eyjum í gær. Rætt er við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir hann að það hefði verið hörkuveiði að undanförnu.
„Við lönduðum fullfermi á laugardag og aftur í gær og það gerði Bergur einnig. Í báðum túrum fiskuðum við á Síðugrunni og það gekk vel. Við vorum 20 tíma í hvorum túr að fá fullfermi. Versta var að það var snarvitlaust veður í seinni túrnum. Bergur byrjaði reyndar fyrri túinn sinn í Háfadýpinu en síðan var lokað þar og þá hélt hann á Síðugrunn. Þarna á Síðugrunni fékkst mjög góður fiskur, í fyrri túrnum var þetta mest þorskur en ýsa í þeim seinni. Ég geri ráð fyrir að við og Bergur höldum til veiða á ný á sunnudagsmorgun. Á austursvæðinu, þar sem við vorum, verður lokað annað kvöld en á sunnudagsmorgun verður opnað á Selvogsbankanum og þar er örugglega fullt af fiski,” sagði Birgir Þór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst