Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum hefur Hlynur Sigmarsson, stjórnarmaður hjá HSÍ, fengið umboð frá þýska úrvalsdeildarfélaginu Flensburg til að halda leik félagsins gegn Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni hér á landi.
Leikurinn mun fara fram hinn 2. febrúar næstkomandi og eigi draumur Hlyns að verða að raunveruleika þarf hann sárlega stuðning fyrirtækja eða fjársterkra aðila.
Hlynur fær ekki mikinn tíma til viðbótar í að ganga frá fjárhagslegu hliðinni en staðan er ekki björt í augnablikinu þar sem Hlyni hefur ekki gengið sem skyldi að finna stóra styrktaraðila.
„Þeir aðilar sem ég hef þegar rætt við eru ekki eins spenntir fyrir þessu dæmi og ég er. Það er miður og staðreyndin er sú að ég fæ ekki mikinn tíma í viðbót til þess að ganga frá þessu. Ég þarf að gefa Flensburg einhver svör fljótlega,” sagði Hlynur en það kostar sitt að flytja slíkan stórleik hingað til lands.
„Ég þarf að borga Flensburg 22 milljónir fyrir leikinn og svo þarf að borga flugið fyrir mannskapinn sem kostar svona 7 milljónir. Þess utan er kostnaður við leigu á íþróttahúsi og ef ég til að mynda fer með leikinn í Egilshöll þá er kostnaður við hvert sæti 1.000 krónur að lágmarki. Svo á eftir að koma upp klukku, leggja gólf, fá starfsfólk og fleira þannig að kostnaðurinn er mjög mikill en ekki það mikill að þetta sé ekki hægt með góðri aðstoð, til að mynda stórfyrirtækis.”
Um er að ræða stórleik i þýska boltanum enda hér á ferðinni tvö af betri liðum deildarinnar og með liðunum leika íslenskir landsliðsmenn. Einar Hólmgeirsson og Alexander Peterson spila með Flensburg en Guðjón Valur Sigurðsson, Róbert Gunnarsson og Sverre Jakobsson með Gummersbach en liðið þjálfar síðan Alfreð Gíslason.
Hlynur segist verða á ferðinni einhverja næsta daga í leit að stuðningi og vonast eftir góðum móttökum. „Annars verður ekkert af þessu og það væri miður enda um sannkallaðan stórviðburð að ræða.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst