Hann sagði jafnframt að óhugsandi hefði verið að flytja þennan fjölda fyrir áratug, mikil vinna, metnaður og framsýni tryggði þennan góðan árangur. Samkvæmt spám er talið að íbúum í London muni fjölga c.a 20% á næstu 15 árum.
Á lítilli eyju norður í Atlanshafi þar sem flutningar og almenningssamgöngur eru ríkisreknar og fara fram á sjó, er því miður annað uppi á teningnum. Þar búa viðskiptavinir við frátafir, óöryggi og hafa glatað trausti á samgöngunum, auk þess sem flutningsgeta fullnægir ekki þörfum og skapar því mikla spennu. Það er grafalvarleg staða!
Staða sem getur bæði haft neikvæð áhrif á íbúaþróun og ekki síður áhuga ferðamanna á heimsókn. Þetta verður að laga og sem betur fer virðist vera vera einhver skilningur á því. En kannski ekki nægur!
Helstu erfiðleikar í þessum samgöngum eru erfið siglingaleið og það að nýleg höfn og ferja virki saman á öðrum endanum. Í hönnun er ný ferja sem á að tryggja mun meira öryggi gagnvart frátöfum. Það er sannarlega hluti af verkefninu, hinn hlutinn er að tryggja flutningsgetu til nánustu framtíðar. Þetta þarf að fara saman. Veruleg aukning er í farþegaflutningum á siglingaleiðinni og stefnir í að farþegar verði á þessu ári um 300 þúsund, sem er met og samkvæmt spá vegagerðarinnar verður þörfin í óhindraðri þróun um 500 þúsund farþegar árið 2020 og um 700 þúsund farþegar árið 2030. Það felast því umtalsverð tækifæri í alvöru samgöngubótum.
Sú ferja sem í hönnun er mun ekki fullnægja þeirri aukningu sem spáð er og varla þeirri þörf sem er í kerfinu í dag á álagstímum. Sú staðreynd vekur eðlilega ótta meðal íbúa. Þeim ótta verður að eyða. Það er erfitt að trúa því að ekki liggi fyrir hjá samgönguyfirvöldum nákvæm áætlun sem tekur mið af þörfum nánustu framtíðar, þegar ráðist er í miklar fjárfestingar. Samgönguyfirvöld verða að skýra framtíðarsýn sína. Hver sem hún er! Hún hlýtur að þola dagsljósið!
Bæjarstjórnin hlýtur að vera óróleg. Íbúaþróun í hættu, framtíð ferðaiðnaðar óljós, þar liggja umtalsverðar fjárfestingar á undanförnum árum, hjá bæjaryfirvöldum t.d. í stóru og merkilegu safni og einstaklingum í gistirými, veitingarekstri og í annari þjónustu. Reist á miklum væntingum. Bæjarfulltrúar verða að kalla eftir nákvæmri áætlun í samgöngum án tafar og hafa kjark til að leggja hana fyrir bæjarbúa. Hver sem hún er! Öðruvísi verður ekki slegið á þá spennu og þann ótta sem ríkir ásamt auknu vantrausti á framtíðina, nema sannarlega sé innistæða fyrir því! Þá gengur ekki að sitja meðvirkir með hendur í skauti!
Það er erfitt að bera saman London og Vestmannaeyjar. Grundavallaratriðin eru hins vegar þó sömu. Traustar og öruggar samgöngur eru lykilatriði í nútímasamfélagi sem vill vaxa og dafna.
Páll Scheving Ingvarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst