Það er mikið fjallað um Landeyjahöfn þessa dagana, skiljanlega. En mig langar að byrja á því að lýsa yfir mikilli ánægju með það að skipstjórarnir, sem að sjálfsögðu eru sérfræðingar í því að nýta Landeyjahöfn, skyldu fá fund með innanríkisráðherra, eða fulltrúum hennar, en mig langar líka að senda henni baráttukveðju frá okkur Eyjamönnum í sínum veikindum.
Ég vona það að þessi fundur, ásamt skrifum fjölmargra sem vit hafa á málinu, verði til þess, að smíðinni á nýrri ferju verði frestað, enda mikilvægast í stöðinni að fá óháða aðila til þess að gera nákvæma úttekt á höfninni og gríðarlega mikilvægt að áður en farið verður í að smíða þessa sér hönnuðu ferju fyrir Landeyjahöfn að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hvort það sé einhver möguleiki á því að Landeyjahöfn verði einhvern tímann heilsárs höfn, en ég er á þeirri skoðun að svo verði ekki.
Varðandi skoðunarkönnun bæjarstjórnarinnar, þá er hún eiginlega ekki svara verð.
Einnig er ég ósammála stefnu bæjarstjórnarinnar og hefði sjálfur aldrei skrifað upp á þessi vinnubrögð.
Ég skil reyndar vel skoðanir sumra, en tel enn að vandamál bæjarstjórnarinnar sé það, að þar séu menn enn að reyna að réttlæta fyrri ákvarðanir í samgöngumálum okkar.
Það er með ólíkindum að horfa upp á alla þessa ferðamenn á landinu okkar á meðan enginn kemur til Eyja og skelfilegt að hugsa til þess, að gríðarlegur fjöldi fólks hér í Vestmannaeyjum hefur lagt allt sitt undir í að reyna að skapa sér og sínum tekjur í ferðaþjónustu tengdum greinum. Við sjáum þetta kannski best núna þegar sum gistiheimilin hafa lokað yfir vetrartímann, sem og sumir veitingastaðir
Það er mikið hlegið að því þessa dagana að menn þurfi að fá Dísu til þess að grynnka í Landeyjahöfn til þess að Belgarnir komist inn í höfnina til þess að grynnka, og það segir sig svolítið sjálft að ætla sér að nota grafskip sem rista hátt í 4 metra til þess að dæla í burtu sandi, þar sem dýpið er einhver staðar í kring um 2 metra, getur orðið ansi flókið, að maður tali ekki um þá staðreynd að það þarf að byrja við innsiglinguna, sem þýðir að það er alveg vonlaust fyrir þessi skip að vinna þarna nema í mesta lagi 1-1.5 metra ölduhæð.
Ég tók líka eftir því í umfjöllun um Landeyjahöfn á fundi með framsóknarmönnum í síðustu viku, að þegar kvartað var yfir háum fargjöldum með Herjólfi, þá var bent á það að augljóslega fengust engar lækkanir á fargjöldum á meðan dæla þyrfti hundruðum milljóna í að dæla burtu sand úr höfninni og ég tók líka eftir því, að þingmaðurinn með reynslu sjómannsins í liði framsóknarmanna, furðaði sig á því að í hvert skipti sem vindur og alda dytti niður í nokkra daga yfir vetrarmánuðina, að þá kæmi fram krafa frá Eyjamönnum um að senda þegar grafskipin af stað til þess að reyna að moka út úr höfninni, sem er augljóslega alveg glórulaust, enda hef ég stundum fengið það á tilfinninguna að yfir vetrarmánuðina sé náttúran stundum fljótari að fylla höfnina heldur en við að tæma hana.
Varðandi fullyrðingar úr bæjarstjórninni að það þurfi ekki stærri ferju vegna þess að það séu ekki allar ferðir fullar yfir sumarmánuðina, þá vil ég benda á það, að það hefur ekki verið gerð könnun á því hversu margir ferðamenn hætta við að koma til Vestmannaeyjar vegna þess að þeir lenda á biðlista á sumrin, en það segir sig svolítið sjálft að þegar við sjálf erum að ferðast í öðrum löndum, þá fer maður ekki að ferðast langa vegalengd í von og óvon vitandi það að vera á biðlista. Eina svarið við þessu er stærri ferja, með helst amk. þrefalda flutningsgetu á við núverandi ferju. Það er nóg til af slíkum ferjum, bæði til sölu og leigu út um allan heim. Verði niðurstaðan sú með Landeyjahöfn, að hún verði aldrei heilsárshöfn, þá er það mín skoðun, að smíða þurfi þetta stóra ferju sem siglt getur til Þorlákshafnar á innan við 2 tímum, með öllum þeim nútíma þægindum sem við Eyjamenn eigum rétt á. Síðan er einfaldlega að bjóða út rekstur Landeyjahafnar yfir sumar mánuðina með ferju sem þá hentaði í þá flutninga sem fylgja sumar mánuðunum. Auðvitað er alltaf hægt að fara í göng, en eins og ágæt vinkona mín spáði fyrir um á síðasta ári, þá er ég sammála þeirri skoðun að það muni taka þingheim amk. nokkur ár í viðbót í tilraunastarfsemi í Landeyjahöfn, reyndar er veðurspáin fyrir vinnu í Landeyjahöfn næstu dagana óvenju góð, gallinn er bara sá að merkilegt nokkuð þá á hann örugglega eftir að hvessa aftur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst