Þegar Landeyjahöfn opnaði árið 2010 fundaði bæjarstjórn Vestmannaeyja um borð í Herjólfi, í fyrstu ferðinni. Nú styttist í að ný ferja komi til landsins og eðlilega hvísla bæjarbúar því sín á milli hvort ný bæjarstjórn fylgi ekki fordæmi forvera sinna og haldi aukafund um borð í nýrri ferju í fyrstu ferð.
Ekki má þó búast við að fyrsta ferðin verði einhver skemmtiferð, því búast má við að hún verði farin uppí Þorlákshöfn, þar sem búist er við komu skipsins til landsins um hávetur. Ljósi punkturinn við það er að bæjarstjórn getur þá fundað í nokkra klukkutíma og rætt til að mynda samgöngumálin.
En það merkilega í þessu öllu er að Elliði Vignisson, nýráðinn bæjarstjóri í Ölfusi mun sennilega standa á kæjanum og taka á móti spottanum og aðstoða bæjarfulltrúa frá borði. Elliði var einmitt bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þegar fundað var síðast um borð í Herjólfi.
Hér að neðan má sjá mynd Eyjar.net frá fundi bæjarstjórnar um borð í Herjólfi, frá árinu 2010. Gunnlaugur Grettisson, þáverandi forseti bæjarstjórnar stendur í pontu. Gunnlaugur er nú rekstrarstjóri Herjólfs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst