Það var mikil og fjölbreytt dagskrá á Goslokahátíð og 100 ára afmælisveilsu Vestmannaeyjabæjar. Einn af skipuleggjendum hátíðarhaldanna er Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss. Eyjar.net ræddi við Kára um hvernig til tókst.
Aðspurður um hvort hann sé ánægður með hvernig til tókst segir Kári: „Já, tvímælalaust. Hvert sem litið var alla helgina var fullt að fólki, hvort heldur á auglýstum dagskrám eða við að borða eða drekka út um allan bæ. Síðan var sérlega gaman að sjá Svísusundið tekið aftur í notkun, tvímælalaust eitthvað sem er komið til að vera. Um 2000 manns fylltu Íþróttahöllina og nutu frábærra tónleika í boði Vestmannaeyjabæjar og þá var einnig aðalhátíðin á Skansinum gríðarlega vel heppnuð. Veðrið átti vitaskuld stóran þátt í hversu vel tókst til en einnig hið velheppnaða samstarf við Goslokanefnd sem þýddi að enn fleiri viðburðir voru í boði en annars hefði orðið.”
„Það kæmi mér ekki á óvart að gestir hafi verið fleiri en nemur fjölda íbúa Vestmannaeyja. Það var einfaldlega alls staðar fullt. Hjá okkur í Safnahúsinu voru að minnsta kosti 250 manns á Eyjahjartanu og urðu fjölmargir frá að hverfa. Einnig var vel mætt hjá Fornbílaklúbbinum fyrir utan Safnahúsið sem og á afskaplega áhugaverðan fyrirlestur í Sagnheimum á sunnudeginum. Þá þótti mér merkilegt að sjá allt fullt út úr dyrum hjá Finni teiknikennara í Akóges en þegar leið að opnun hjá Jóni Óskari og Huldu Hákon þá var eins og síldartorfa kæmi æðandi upp Guðlaugströppurnar. Mér var sagt að það hafi verið stappað einnig á öðrum sýningaropnunum. Sjálfur komst ég með herkjum til Gíslínu og Kristins Pálssonar og þar var fullt af glöðu fólki.” segir Kári.
Kári segir að samtals hafi þetta verið um 50 viðburðir á fjórum dögum. „Og það sem mér þótti skemmtilegast var hversu fjölbreyttir viðburðirnir voru. Margvíslegar myndlistarsýningar, ólík tónlistaratriði, hressandi gönguferðir og áhugaverðar dagskrár um hin fjölbreyttustu efni.”
„Ég held að það sem hafi gert útslagið með hversu vel þessi Goslokahátíð tókst til hafi annars vegar verið ótrúleg veðursæld og hins vegar hversu vel Goslokanefnd tókst að bjóða upp á fjölbreytt efni fyrir ólíka aldurshópa og ólík áhugasvið. Þá reyndist samvinnan við afmælisnefnd bæjarins afar vel heppnuð, við vorum með föstudaginn og Goslokanefnd sá um hina dagana – allt unnið í góðri einingu.” segir Kári Bjarnason.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst