Ekki alls fyrir löngu tók Herjólfur örlítinn snúning fyrir utan Landeyjahöfn. Netverjar og álitsgjafar voru fljótir að taka sér lyklaborð í hönd og banna fólki að ræða málið af sannleika, því sannleikurinn er víst stundum sagna verstur.
Ég ætla því að fylgja þessum fyrirmælum og mæla nokkur orð um hann Herjólf blessaðann, já blessaður er hann, smíðaður hjá hvorki meira né minna en Crist S.A í Póllandi forðum daga.
I love the smell of napalm in the morning sagði Robert Duvall í myndinni Apocalypse Now og er hún ein hinna gullnu setninga kvikmyndanna. Ég er eins hugsandi. I love the smell of the garbage from Sorpa in Herjólfur inn the morning. Mikið þykir mér vænt um að finna þessa dásamlegu lykt sem umlykur farþegarými Herjólfs á morgnana þegar verið er flytja dásamlegt ruslið okkar sem ekki má brenna upp á land, svo ég tali ekki um dásamlegan ilminn af fiskafurðum sem verið er að flytja upp á land. Þetta smýgur líka inn í bílana okkar svo ilmurinn fylgir okkur það sem eftir er dagsins.
Ekki finnst mér síður dásamlegt að stíga í ilmandi affall fiskflutningsbílana þannig að það berist inn í bílinn og fylgi þar með daginn eftir líka. Æ hvað sagði ekki nóbelskáldið: Æ þú kútlausa skítalykt. Já, þetta er lyktin af peningum gott fólk. Ég sé enga ástæðu til þess að krefjast þess að Sorpa bjóði upp á loftþétta og lykthelda gáma í þessa flutninga. Hvað þá að gerðar séu kröfur til fiskflutninga. Þetta er svo notalegt svona.
Ég get ekki lýst hrifningu minni á því að tekin hafi verið ákvörðun um að skipta um farþegabrúna núna um mitt sumar þegar nánast enga ferðamenn er að sjá. Fólk hefur bara gott af því að ganga með bílunum út. Þetta mátti auðvitað ekki gera að vetri til, þegar eyjan iðar af mannlífi, veitingastaðir eru fullir og fólk stendur í biðröðum utan hótelanna. Já, þarna ráða för menn sem hafa puttann á púlsinum.
Þar sem ég dundaði við það einhverntímann í fyrndinni að koma nálægt pólitík get ég upplýst háttvirta kjósendur um það að ég man ekkert eftir því að lofað hafi verið sjö ferðum á dag. Þessar sex sem nú er boðið uppá nægja fullkomlega. Það er nú ekki eins og fólk komist ekki með, hvað þá bílar. Annað væri ef skipið væri troðfullt af fólki og bílar endalaust á biðlista. Þar fyrir utan er fólk svo passasamt vegna Corona veirunnar. Já, ef sjöundu ferðinni yrði bætt við yrði bara ennþá meiri aðskilnaður fólks og það viljum við ekki, því maður er manns gaman, sérstaklega í öndunarvél.
Það er engin ástæða til þess að flýta sér að samningaborðinu vegna hugsanlegs verkfalls. Það er alltaf hægt að grípa til gamla Herjólfs ef í harðbakkann slær. Þetta er líka svo skemmtileg kynning fyrir eyjarnar þegar allt er í hers höndum. Fólk bókstaflega flykkist í Landeyjahöfn til að fara með þeim gamla. Hann er líka dísel.
Það var vel til fundið hjá framkvæmdastjóranum að skella sér norður um heiðar til Húsavíkur í frí, núna þegar ekkert er að gera. Það þarf ekkert að taka merkilegar ákvarðanir núna. Ó ég sé hann fyrir mér núna, inni á kaffihúsi á nýjum höfuðstað norðurlands með bauk í hönd, horfandi aðdáunaraugum á hvalina bylta sér í sjávarborðinu kyrjandi nýjan þjóðsöng Húsvíkinga, ja ja ding dong.
Kveðja frá miklum aðdáanda
Alfreð Alfreðssyni
Höfundur er íbúi í Vestmannaeyjum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst