Í Norður Kóreu situr einræðisherrann Kim Jong Un á sínum feita rassi og hleður í sig góðgætum meðan almúginn sveltur. Kim þessi fékk ríkið í arf frá föður sínum og sá frá föður sínum.
Í Norður Kóreu talar fólk ekki um pólitík, því þá er það gert höfðinu styttra. Það talar ekki um veðrið því breytileiki veðursins þar er lítill. Þess vegna talar það um mat, enda snýst dalgegt amstur fólksins þar um að öngla í næstu máltíð því annars er voðinn vís.
Við sem búum á Íslandi erum blessunarlega laus við svona K(r)imma. Við megum segja það sem við viljum, þurfum fæst að hugsa um hvort við eigum fyrir næstu máltíð og veðrið er uppspretta daglegra umræðna.
Ég hef leyft mér þann munað að hafa skoðanir á samfélaginu okkar. Ég reyni að færa rök fyrir skoðunum mínum sem ég tel að séu samfélaginu til góða. Oft lendi ég í því að fólk sussi á mig og biðji mig alls ekki að segja sannleikann. Þetta er kallað að stinga hausnum í sandinn. Oftast fjalla skrif mín um samgöngumál, en ég tel að rangar ákvarðanir stjórnvalda hafi orðið þess valdandi að samgöngumál okkar eru í miklum ógöngum.
Þó er mikilvægt að almenningur hafi varann á sér þegar óprúttnir aðilar reyna að höfða til þeirra. Fjöldasálfræði er hættulegur leikur sem hefur leitt marga hörmungina yfir mannkynið. Þar þarf ekki nema einn til. Dæmi um þetta eru menn eins og Joseph Göbbels, *Roger Stone og *Roger Ails svo einhverjir séu nefndir. Gengdalaus áróður á samfélagsmiðlum eru nýjasta dæmið um slíka sálfræði. Með slíkum tækjum er almenningur mataður á innihaldslausum upplýsingum til þess eins að hafa áhrif á skoðanir fólks. Brexit hefði aldrei orðið að veruleika og Trump aldrei forseti ef fólk hefði áttað sig á því hvað í gangi var. Mark Twain sagði eitt sinn, með nógu mikla peninga milli handanna gæti ég sannfært bandaríkjamenn um að kjósa apa sem forseta. Enginn átti von á því að sú spá rættist.
Gott fólk lætur sér ekki detta slíkir klækir í hug en það gera illmenni eins og Kim í Norður Kóreu og Pútín í Rússlandi, menn sem hafa ekki það siðferði sem fólk almennt býr yfir.
Allar skoðanir eiga rétt á sér. Stjórnmálamenn eiga að hafa þann manndóm í sér að geta hlustað á gagnrýni og ef þannig ber við að vera tilbúnir að skipta um skoðun. Það er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar eru kallaðir fjórða valdið. Þeir veita samfélaginu aðhald. Þannig virkar heilbrigt þjóðfélag. Látið í ykkur heyra.
Alfreð Alfreðsson
*Roger Stone er maðurinn á bak við kjör manna eins og Richard Nixon og Donald Trump í stól forseta bandaríkjanna. Roger Ails stofnaði Fox News fréttastöðina og var lykilmaður við að koma Trump í forsetastólinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst