Ingi Freyr – Einn víðförlasti netagerðarmaður Íslands
„Hampiðjan er í dag stærsti framleiðandi veiðarfæra í heimi með starfsemi á 76 stöðum í 21 landi og með um 2000 starfsmenn. Höfuðstöðvarnar eru við Skarfabakka í Sundahöfn en þar eru aðalskrifstofurnar, netaverkstæði og aðallager fyrirtækisins á Íslandi. Hjarta framleiðslunnar á vörum fyrirtækisins er Hampidjan Baltic í Litháen, þar sem framleiddir eru þræðir, hnýtt net og fléttaðir ofurkaðlar ásamt framleiðslu á fullbúnum veiðarfærum. Frá 2013 hefur Hampiðjan rúmlega sexfaldast í stærð, frá því að velta 50 milljónum evra í 322 milljónir á síðasta ár. Vöxturinn hefur verið góð blanda af sterkum innri vexti og stofnun og kaupum á félögum í veiðarfæra- og fiskeldisþjónustu,“ segir Ingi Freyr Ágústsson sem stýrir starfsstöð Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum sem byggir á gömlum grunni.
„Stofnendur félagsins fyrir réttum 90 árum hefur sjálfsagt aldrei órað fyrir því að litla fyrirtækið þeirra sem barðist oft í bökkum fyrstu áratugina, yrði að stærsta veiðarfærafyrirtæki heims með starfsemi allt frá Dutch Harbor í Alaska í vestri til Timaru á Suðurey Nýja Sjálands í austri,“ bætir Ingi Freyr við og passar hann vel inn í þessa mynd. Hefur starfað sem netagerðarmaður víða um heim.
„Við erum um 100 starfsmennirnir á Íslandi og héðan er samsteypunni stjórnað en félög sem hafa verið keypt er flestum stjórnað af fyrri eigendum. Er það besta leiðin til að halda þeim gangandi.“
Víða tyllt niður fæti
Ingi Freyr hefur starfað lengi í netagerð og komið víða við. „Í janúar á þessu ári voru liðin 34 ár síðan ég byrjaði hjá Netagerð Ingólfs, seinna Ísfelli og svo hjá Hampiðjunni. Þaðan lá leiðin til Seaflower í Namibíu í Afríku. Næst til Fleur De Mer í Marokkó svo til Hampiðjunnar í Litháen svo Tornet á Kanaríeyjum og þaðan til Sea Harvest í Suður Afríku.Fór einn 84 daga túr á verksmiðjutogara í Kyrrahafinu að veiða makríl og endaði sá túr á makríl veiðum við Færeyjar eftir 30 daga siglingu úr Kyrrahafinu.
Tók svo einn 64 daga túr á verksmiðjutogara í Máritaníu. Þannig að maður hefur prófað ýmislegt,“ segir netagerðarmaðurinn víðförli. „Í allt voru þetta tæp 20 ár sem ég var erlendis og hingað er ég kominn, Eyjamaðurinn. Kunni þessu vel en eftir þetta sumar finnst manni flest betra en Ísland,“ segir Ingi Freyr og hlær.
Fjölbreytt þjónusta
Í Vestmannaeyjum eru sex í fullu starfi og einn í hálfu sem þjónusta öll sjávarútvegsfyrirtækin í Eyjum. Eru veiðarfærin stærsti hlutinn en sala á vörum og búnaði er vaxandi hluti starfseminnar. „Við seljum alla járnavöru sem skipin þurfa, lása, tóg, garn og net og allskonar fatnað og hreinsiefni sem þarf til sjós. Í frystihúsin seljum við hanska, svuntur, hárnet og aðra einnota vöru. Fimm til sex tegundir af stígvélum, gúmmígalla, vettlinga, aðgerðarvesti fyrir sjómenn og kuldagalla svo það helst sé nefnt. Ef það er ekki til hjá okkur getum við reddað því á tveimur dögum.“
Ingi Freyr segir að þessi þáttur starfseminnar hafi eflst með auknum umsvifum dótturfyrirtækis Hampiðjunnar, Voot ehf. Voot sem heyrir nú undir Hampiðjuna hefur byggt upp sterka markaðsstöðu í útgerðar- og rekstrarvörum ásamt því að þróa sjóvinnufatalínuna MarWear og því sem fyrirtækið var upphaflega stofnað til, að útvega beitu til línuveiðiskipa. „Nú er þetta einfaldara og auðveldar okkur að þjónusta viðskiptavinina sem fjölgar með hverjum deginum. Þeir eru með allar sápur og olíur sem við erum ekki með hér. En við getum reddað öllu sem fiskiskip og vinnsla þarfnast með mjög skömmum fyrirvara.“
Von um loðnuvertíð
Hampiðjan í Vestmannaeyjum byggir á traustum grunni og sér að mestu um uppsjávarflota Eyjamanna. „Eigum markaðinn nánast alveg,“ segir Ingi Freyr. „Öll skipin eru með troll frá okkur en einhverjir með Vonartroll frá Færeyjum sem er í eigu Hampiðjunnar. Sjáum líka um viðgerðir og viðhald á loðnunótum skipa Vinnslustöðvarinnar.
Það var ansi mikið högg þegar ekki var gefinn út loðnukvóti síðasta vetur og þar af leiðandi engin loðnuvertíð. Við höfum haldið út fullri starfsemi síðustu ár og fínt að gera þetta árið. Við höldum starfsfólkinu með von um að það verði loðnuvertíð. Það er hægt að senda verkefni milli starfsstöðva en við eigum mikið undir loðnunni.“
Lítil endurnýjum
Ekki er hægt að segja að ungt fólk sæki í netagerðarnám en tveir eru á samningi hjá Hampiðjunni í Eyjum. „Veit um tvo uppi á landi. Það hefur verið aukning hjá fyrirtækjum í fiskeldi fyrir austan. Vilja hafa fagmenn til staðar þegar gera þarf við net í kvíunum. Stéttin er ekki alveg að deyja út, en ekki langt frá því. Við erum fjórir lærðir hjá okkur og einn hjá Ísfelli, tveir hjá Berg-Huginn og þrír hjá Vinnslustöðinni. Samtals tíu og af þeim eru sjö 65 ára og eldri. Því stutt í að það verði bara þrír eftir,“ segir Ingi Freyr að lokum.
Myndir Óskar Pétur.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst