Laxeldi í Vestmannaeyjum – Hugmynd að verða að veruleika
17. febrúar, 2023
„Þetta verkefni hefur verið í vinnslu í yfir þrjú ár og varð til þegar Daði og Hallgrímur hvor í sínu lagi gældu við þessa hugmynd, að þróa laxeldi hér í Vestmannaeyjum. Þeir náðu saman og verkefnið tók flugið. Ekki síst með stuðningi frá sveitarfélaginu, starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar og nú er hugmyndin að verða að veruleika.
Við erum komin með flest þau leyfi sem þarf til að hefja framkvæmdir og framleiðslu á fiski til framtíðar,“ sagði Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Icelandic Land Farm Salmon (ILFS) sem er að reisa í laxeldisstöð í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum og seiðaeldisstöð í botni Friðarhafnar. Er Ásgeir einn stofnenda með Daða Pálssyni og Hallgrími Steinssyni sem eru í stjórn með honum.
„Það sem heillaði mig, þegar ég kom að þessu var þessi ástríða frumkvöðlanna að byggja upp eitthvað til frambúðar í Vestmannaeyjum og styrkja stoðirnar. Vestmannaeyjar eru ein stærsta verstöð á Íslandi og það sem við erum að horfa til er matvælaframleiðsla með fyrirsjáanleika og stöðugleika með framleiðslu alla daga ársins. Getum selt og afhent vöruna eftir pöntunum.“
Dæminu snúið við
Lárus sagði það tákrænt að eftir að hafa sótt fisk í sjó í aldir væri nú verið að taka sjóinn og framleiða matvæli á landi. Eftirspurnin er fyrir hendi og sjóinn fá þeir úr borholum í fjörunni. „Fiskstofnar eru fullnýttir og það verður ekki sótt meira magn í sjóinn. Nú er þessu snúið við með því að nota sjóinn og stjórna framleiðslunni. Við erum stórhuga og ætlum að reisa hér mikil mannvirki en við stefnum að því að láta það falla vel inn í landið. Starfsemin verður græn þar sem allar afurðir verða nýttar og líka allur úrgangur,“ sagði Lárus að endingu.
Mynd: Sigurjón og Lárus ásamt aðstendum verkefnisins og hluta af fjölskyldu Sigurjóns sem var viðstatt þegar hann tók fyrstu skóflustunguna.