Leikfélag Vestmannaeyja réðist í það stóra verkefni snemma síðasta árs að setja upp hið þekkta verk The Rocky Horror Show í leikstjórn Árna Grétars Jóhannssonar. Aðsókn var góð og hlotnaðist félaginu sá heiður að fá að sýna Rocky Horror á stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.
Uppselt var og viðtökur stórkostlegar sem er mikil viðurkenning fyrir starf Leikfélagsins sem stendur á gömlum merg. Fyrir það var LV veittur smá viðurkenningarvottur við veitingu Fréttapýramídana.
„Aðsókn hér heima fór fram úr okkar björtustu vonum og var það mikill heiður að sýning okkar var valin úr tólf sýningum áhugaleikfélaga víðsvegar af landinu sem athyglisverðasta sýning áhugaleikhúss ársið 2023,“ segir stjórn félagsins.
Hófst þá mikil vinna við að skipuleggja hópferð leikara og annarra þátttakenda sýningarinnar til höfuðborgarinnar. „Flytja þurfti leikmyndir, panta ferðir og gistingu fyrir alla þátttakendur. Græja ljós og hljóð þegar komið var í Þjóðleikhúsið og æfa verkið á nýju og mun stærra sviði. Okkur í Leikfélaginu langar að þakka fyrir alla þá aðstoð sem við fengum til að gera þennan draum okkar að veruleika.“
Aðsókn á sýninguna í Þjóðleikhúsinu var alveg stórkostleg, en uppselt var á sýninguna í 500 manna sal og viðtökur frábærar. „Skömmu eftir að miðasala fór af stað hafði Þjóðleikhúsið samband við okkur og tilkynnti okkur að hálfur salurinn hafi rokið út á mettíma, sem sýnir okkur hvað Vestmannaeyingar og velunnarar félagsins standa þétt við bakið á okkur, erum við þeim ævinlega þakklát.“
Leikfélagið er að fara af stað með áheyrnarprufur fyrir næsta verk og það er ekki af verri endanum, grín söngleikurinn Spamalot eftir Monty Python-hópinn sem farið hefur sigurför um heiminn.
Leikstjóri er Stefán Benedikt Vilhelmsson, sem leikstýrði hjá okkur Litlu Hryllingsbúðinni og Nei, Ráðherra. Æfingar hefjast í febrúar og stefnt er að frumsýningu um páskana. Við hlökkum mikið til að sjá ykkur í salnum og lofum að enginn mun fara óhleginn heim. Takk kærlega fyrir okkur,“ eru lokaorð stjórnarinnar.
Mynd Addi í London: Frá vinstri: Ingveldur Theodórsdóttir, gjaldkeri, Margrét Steinunn Jónsdóttir mMeðstjórnandi, Valgerður Elín Sigmarsdóttir meðstjórnandi, Albert Snær Tórshamar formaður, Svala Hauksdóttir meðstjórnandi, Zindri Freyr Ragnarsson Caine varaformaður og fremst Hólmfríður Sigurðardóttir sem var lengi einn af máttarstólpum LV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst