„Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973 og var því lýst lokið þann 3. júlí sama ár. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þó að nú á 21. öldinni rísi upp kynslóð, sem ekki upplifði atburðina örlagaríku, eru þeir þó greyptir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu fara frá manni til manns. Þannig hefur gosið grópað huga Eyjamanna og er eitt af því sem gerir íbúa Heimaeyjar einstaka,“ segir á Heimaslóð um Heimaeyjargosið sem hófst á þessum degi fyrir 51 ári.
Í hönd fór einstök björgun sjómanna og útgerða sem fluttu um 5000 íbúa upp á land gosnóttina og þá tók óvissan við. Samfélagið í Eyjum í algerri upplausn og fæstir höfðu vissan samastað. Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að nú eru Grindvíkingar í ekki ósvipaðri stöðu. Náttúröflin, jarðskjálftar og eldgos herja á bæinn sem Grindvíkingar þurftu að yfirgefa þann 10. nóvember sl. og gos kom upp í bænum þann 14. janúar sl.
Í þessum hremmingum nágranna okkar og vina í Grindavík hefur hugur Eyjamanna verið hjá þeim. Hafa gengið nærri sumum sem þekkja af eigin reynslu það sem fólkið í Grindavík hefur gengið í gegnum. Það er von okkar að þau fái bæinn sinn aftur og að hann rísi til fyrri reisnar. Ekki munu allir snúa aftur þó allt fari á besta veg. Það varð raunin í Eyjum sem risu þó úr öskustónni í þess orðs fyllstu merkingu.
Hugur Eyjabúa er hjá Grindvíkingum á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir. En eins og með Eyjar þá vonum við öll að aftur verði byggilegt HEIMA.
Mynd Addi í London – Sól yfir Grindavík séð frá Eyjum.
Ómar Garðarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst