Við ákváðum að taka þráðinn á nokkrum vel völdum Eyjamönnum og fá þá til að líta um öxl og fram á veginn um áramót.
Elvar Breki Friðbergsson, Símonía Helgadóttir, Friðberg Egill Sigurðsson og Kristbjörg Unnur Friðbergsdóttir.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Minnistæðast frá árinu er klárlega afmælis og jólagjöf fjölskyldunnar sem var London ferð og Chelsea leikur, ómetanleg upplifun og samvera, ásamt útskrift Kristbjargar úr FÍV.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Árið 2024 leggst vel í mig, bjartsýn meðan ég hef baklandið mitt og vinnurnar sem mér líður vel í.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Mér fannst skemmtilegast að eignast lítinn bróðir og fara í sumarbústað.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Lýst vel à það, ég er spennt fyrir 9 àra afmælinu mínu í mars og næstu áramótum útaf því að það er svo skemmtilegt að sjá sprengjurnar.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Minnistæðast var sumarfríið, fórum í bústað með krakkana, mikið skoðað og brallað.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Nýja árið leggst vel í mig. Hlakka mest til næsta sumars, vonandi verður sumarfríið jafn gott og síðasta.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Ekkert sérstaklega eftirminnilegir hlutir sem gerðust svo sem, árið verður sennilega seint flokkað sem eitt af stærstu árum lífs míns. Það sem lífgaði árið upp eru m.a. gott frí í góðri vina hópi á Adría- og Miðjarðarhafinu í þessu líka fína skipi, góður árangur ÍBV í handbolta bæði karla og kvenna. Svo eru þau skref sem stigin hafa verið í sumarhúsabyggingu góð þó fá séu, enda liggur ekkert á. Frábær árangur Brighton í enska boltanum gladdi líka, þó að ekkert af honum sé mér að þakka. ..já og svo hef ég mjög gaman af að fylgjast með uppbyggingu hjá Laxey, sem að ég tel það jákvæðasta sem að hefur gerst hér í Eyjum í lengri lengri tíma.
Það sem að dró árið niður er t.d. stríð fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar kemur greinilega í ljós að mannskepnan er grimmasta skepnan á jörðinni og mér finnst viðbrögð ráðamanna heims alveg ótrúleg. Neikvæðar umræður um samgöngur eru að gera mann geðveikan. Slakur árangur fótboltans í Eyjum á þessu ári er ekki til eftirbreytni en ég hef þá trú að við taki uppgangur á næstu árum.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Ég hef mikla trú á þessu ári. Held að það verði okkur gott á vel flestan hátt. Það verður áframhaldandi vöxtur í Eyjum og hann mun verða áframhaldandi á næstu árum ef að menn setja kraft í bættar samgöngur. Eitthvað sem ekki allir vita um er að prentsmiðjan Eyrún verður 80 ára á árinu, rekin af sömu fjölskyldu og á sömu kennitölu allan tímann. Það verður líf og fjör hjá mér í prentsmiðjunni og ég tala nú ekki um í CrossFit fjölskyldunni, eitthvað fyrir alla, í einkaþjálfun og í Janusarverkefninu, sem að ég segi að allir yfir 60 eiga að skoða – gerir öllum gott og rúmlega það. Svo eru líka forsetakosningar á þessu ári og það er aldrei að vita hverjir verða í framboði þar.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Það er margt mjög minnistætt en ef ég á að nefna eitthvað þá hugsa ég að það séu ferðirnar til Dublin og Viliníusar. Að hafa byrjað í HA og byrjað í nýju vinnunni minni. Og auðvitað allir góðu tímarnir með vinum og fjölskyldu.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Bara mjög vel ég hef góða tilfinningu fyrir þessu ári og hlakka til að vita hvað það ár bíður uppá.
Helga Rún Róbertsdóttir og Svanur Páll.
Hvað er minnistæðast frá árinu 2023? Það sem er minnistæðast við árið 2023 er að við komumst að því að við eigum von á barni í júlí 2024.
Hvernig leggst árið 2024 í þig? Árið 2024 leggst bara mjög vel í mig, nýtt og spennandi hlutverk í sumar svo það er nóg að hlakka til.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst