Tvær einkaflugvélar rákust saman á flugi við Vestmannaeyjar í gær. Vélarnar, sem voru flughæfar eftir áreksturinn, lentu á Keflavíkurflugvelli í kjölfarið.
Víkurfréttir greina frá þessu.
Flugvélarnar, sem eru báðar á erlendri skráningu, eru af gerðinni Kingair B200. Flugmaður og einn farþegi voru í annarri vélinni en flugmaður í hinni, að því er fram kemur í umfjöllun miðilsins.
Slysið í rannsókn
„Rannsóknarnefnd samgönguslysa er með umrætt alvarlegt flugatvik til rannsóknar, er varð í gær þegar tvær flugvélar rákust saman á flugi nálægt Vestmannaeyjum. Ég get ekki sagt mikið meira um málið á þessu stigi,“ segir Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í svari við fyrirspurn Víkurfrétta.
Ekki tilkynnt um atvikið í fyrstu
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta lentu flugvélarnar á Keflavíkurflugvelli í gær og tilkynntu ekki um atvikið. Þá voru það þjónustuaðilar flugvélanna sem sáu að þær voru skemmdar. Í kjölfarið greindu flugmennirnir frá því sem hefði gerst.
Lögregla og fulltrúar nefndarinnar voru þá kölluð til.
Frekari upplýsingar hafa ekki komið fram en vélarnar standa enn á Keflavíkurflugvelli, að því er Víkurfréttir herma.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst