Í morgun hélt bæjarstjórn Vestmannaeyja fund sem frestað var í gærkvöldi. Frestunin kom til vegna skrifa Kristjáns L. Möllers, samgöngu- og sveitastjórnaráðherra en bréfið birtist hér á Eyjafréttum.is í gær. Meirihluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja lagði fram ályktun þar sem lýst er undrun á framkomu ráðherra og að hann skuli með þeim hætti setja helstu hagsmuni Vestmannaeyja í farveg vantrausts og flokkspólitískra hagsmuna. Við afgreiðslu ályktunarinnar sat minnihlutinn hjá og harmaði í bókun að umræður um samgöngumál væru komin á þetta stig. Talsverðar umræður spunnust eftir það en ályktun meirihlutans og bókun minnihlutans má lesa hér að neðan.