Eins og greint var frá hér á Eyjafréttum fyrr í morgun, fundaði bæjarráð og bæjarstjóri, Elliði Vignisson með samgönguráðherra, Kristjáni L. Möller og embættismönnum ráðuneytisins. Þeir Elliði og Kristján hafa skipst á föstum skotun undanfarna daga en Elliði segir að þeir hafi m.a. rætt þessa árekstra á fundinum. „Já við ráðherra ræddum þau mál vel og lengi. Sjónarhorn okkar beggja var að þótt stundum hvessi í samskiptum manna þá megi slíkt aldrei hafa ákvörðun á embættisfærslur þeirra. Við Kristján erum báðir gamlir íþróttamenn og eigum ekki í neinum vanda með að skilja átök eftir inn á velli eftir að dómarinn hefur flautað leikinn af,“ sagði Elliði.