Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum hefur tekið saman tölur um nauðungarsölur í Vestmannaeyjum síðastliðin ár en þær sýna að staðan í Vestmannaeyjum er skárri nú en árin fyrir hrun ef tekið er tillit til fjölda beiðna um nauðungarsölu og fjölda beiðna í lokasölu. „Það er eftirtektarvert að fjöldi beiðna og lokasölur í Vestmannaeyjum hafa ekki tekið neinn kipp eftir hrun og mætti miklu fremur tala um árin 2003 og 2004 sem slæm ár í þessu sambandi, en þá átti fiskvinnslan í töluverðu brasi og þá voru þrefalt fleiri lokasölur en á árinu 2011,“ sagði Karl Gauti þegar hann var spurður út í tölurnar.