Hjörtur Kristjánsson, sérfræðingur í lyf- og hjartalækningum hjá Heilbrigðistofnun Vestmannaeyja, hefur sagt upp störfum hjá stofnuninni og hættir um áramót. Hann er fjórði læknirinn sem segir upp síðasta hálfa árið. Karl Björnsson hættir um áramót, Smári Steingrímsson skurðlæknir hættir eftir mánuð og Einar Jónsson er hættur. Bæði Einar og Karl eru heimilislæknar en Hjörtur er eini lyflæknir stofnunarinnar og eini sjúkrahúslæknirinn eftir 1. nóvember þegar Smári hættir. Auk þess hefur ekki verið fastráðinn svæfingalæknir um nokkurt skeið við stofnunina.