Varaspennir sem leysir af hólmi spenni sem bilaði í tengivirki Landsnets í Rimakoti á Landeyjasandi í síðustu viku var tengdur við kerfið í gærkvöldi. Flutningsgeta hans er helmingi minni en spennisins sem bilaði og því eru skerðingar áfram í gildi til notenda í Vestmannaeyjum sem eru með samninga um skerðanlegan flutning.
Vegna gasmyndunar í olíu leysti spennirinn í Rimakoti út að kvöldi þriðjudagsins 11. ágúst og bentu mælingar þá til að tengingar í einum fasa á háspennuvafi væru bilaðar. Hann var settur aftur í rekstur um sólarhring eftir bilun og keyrður eingöngu fyrir forgangsálag á meðan unnið var að undirbúningi og flutningi varaspennis í Rimakot. Flutningurinn gekk vel í alla staði og var hafist handa við að skipta um spenni í Rimakotstengivirkinu í gærmorgun. �?að reyndist töluverð vinna en gekk vel og komst varaspennirinn í rekstur um kl. 20 í gærkvöldi.
Varaspennirinn hefur aðeins helmingsflutningsgetu (15 MVA) á við spenninn sem var í Rimakoti en hann á að duga til að tryggja forgangsorkunotendum í Vestmannaeyjum nægt afl. Skerðingar verða því áfram í gildi til annarra notenda þar til viðgerð er lokið á spenninum sem bilaði. Dreifiveitan í Eyjum stýrir skerðingunni, í samstarfi við notendur á svæðinu, eins og verið hefur frá því á þriðjudagskvöld.
Bilaði spennirinn hefur nú verið fluttur frá Rimakoti til viðgerðar og er von er á erlendum sérfræðing til landsins til að annast hana. �?tla má að viðgerð taki að lágmarki eina viku en ekki er hægt að segja til um það með vissu fyrr en búið verður að opna spenninn og kanna betur alvarleika bilunarinnar.
Til lengri tíma litið eru breytingar fyrirhugaðar á raforkuflutningi til Vestmannaeyja. Næsta sumar verður flutningurinn færður af 33 kV spennu yfir á 66 kV spennu og þá mun spennirinn í Rimakoti aðeins þurfa að þjóna hluta Suðurlands, þ.e. svæðinu frá Landeyjum að Vík í Mýrdal.