-Í dag, miðvikudaginn 16. september, mældist hæsti hiti sem vitað er um í Vestmannaeyjum í september, 17,4 stig. Mælingin var gerð á sjálfvirku stöðinni í kaupstaðnum. Fyrra Vestmannaeyjamet september var frá þeim 3. árið 1890 þegar hitinn mældist 16,4 stig, segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur á bloggsíðu sinni, Hungurdiskar í gær.
-Samfelldar mælingar í Vestmannaeyjum ná aftur til 1877. Mælt var í kaupstaðnum til 1921 en síðan á Stórhöfða. Hæsti hiti sem mældist á mönnuðu stöðinni þar í september var 15,4 stig – þann 30. árið 1958. Í dag fór hiti á Stórhöfða í 16,3 stig – nýtt met fyrir staðinn. Einnig var sett septembermet í Surtsey, 15,0 stig, en þar hafa mælingar einungis verið gerðar í fáein ár.
Fleira um hita dagsins og um stöðuna fyrri hluta mánaðarins má lesa á fjasbókarsíðu hungurdiska.