Talsverðrar óánægju gætir hjá foreldrum með endurskoðaðar og uppfærðar reglur um heimgreiðslur Vestmannaeyjabæjar til foreldra/forráðamanna barna frá 12 mánaða aldri.
Ritstjóri Eyjar.net hefur verið í samskiptum við nokkra þeirra. Þar kemur meðal annars fram að óánægja sé með hvernig viðmiðin séu og hversu margir fá ekkert á meðan beðið er eftir leikskólaplássi miðað við fyrrverandi fyrirkomulag og spurt er: Á þetta að vera “hjálpin” sem maður fær meðan maður bíður eftir leikskólaplássi?
„Erum að ræða þetta á lokaðri facebook grúbbu og get sagt að það er nánast engin að fá þessar greiðslur sem lofað var, mörgum er synjað.“
Ekki greitt út um mánaðarmót
Annað foreldri sem setti sig í samband við Eyjar.net segir:
„Ég er brjáluð út í Vestmannaeyjabæ vegna framkomu þeirra gagnvart fólki sem á að fá heimgreiðslur. Greiðslur koma ekki fyrr en eftir helgi, fólk þarf að borga reikninga. Fólk fær ekki að vita hvaða upphæð kemur og margt fleira sem er ekki í lagi sem ég lenti í þegar ég sótti um.“
Þá segir þriðja foreldrið:
„Eftir að þessu var breytt og greiðslurnar bundnar við tekjur heimilis, þá eru líklega mun færri sem fá þessar heimgreiðslur – því margir – þá sérstaklega hjón og pör sem fara yfir lágmarkslaunaviðmiðið sem bærinn setur upp. En það eru 1.050.000 kr á mánuði. Sem er ekkert voðalega hátt viðmið og flestir eru sammála um að viðmiðið sé of lágt. Það væri athyglisvert að vita hversu margir hafa fengið heimgreiðslur af þeim sem hafa sótt um eftir að fyrirkomulaginu var breytt. Það lúkkar vel á pappír hjá bænum að hafa svona háar heimgreiðslur, en það eru mun færri sem fá þessar greiðslur í dag, en eins og þetta var áður en greiðslurnar voru tekjutengdar.“
Eyjar.net setti sig í samband við Jón Pétursson, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um hádegisbil í dag til að spyrjast fyrir um málið. Svar hans var á þá leið að hann þurfi að skoða málið og fá upplýsingar. Svara er að vænta eftir helgi.
https://eyjar.net/15-milljonir-aaetladar-i-heimgreidslur/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst