Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja í síðasta mánuði var tekin fyrir umsókn um breytta nýtingu á húsnæði á Strandvegi 89-97.
Fram kemur í fundargerðinni að Jón Gísli Ólason sæki um – fyrir hönd fasteignareiganda á Strandvegi 89-97 – breytingu á skipulagsákvæði aðalskipulags Vestmanneyja, til að heimila notkun 2-3 hæðar húsanna fyrir íbúðir.
Fram kemur í bréfi umsækjanda ósk um breytingu á skipulagsákvæði vegna deiliskipulags fyrir reit AT-1 með aðkomu að Strandvegi í samræmi við reit AT-5 þar sem stendur m.a.:
„Íbúðir eru heimilar á efri hæðum en skilyrt er að á jarðhæð skal vera atvinnustarfsemi. Núverandi íbúum, væntanlegum íbúum og öðrum hagsmunaaðilum skal vera ljóst að starfsemi á og við svæðið fylgja umsvif s.s. vegna umferðar, hávaða og lyktar, sem eðlilegt er að fylgi slíkri starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi geta um.“
Í núverandi skipulagsákvæði stendur fyrir svæði AT-1m.a. að „Ekki er heimilt að breyta eldra atvinnuhúsnæði í íbúðir,“ en er óskað að þessu ákvæði verði breytt í samræmi við skipulagsákvæði fyrir svæði AT-5 og er meðfylgjandi þessu bréfi undirritað skjal fyrir hönd eiganda um breytta notkun á húsnæði fyrir Strandveg 89, 91, 93 95, og 97,
segir m.a. í bréfinu, en á 2. og 3. hæð verði möguleiki að útbúa íbúðir, 1-4 íbúðir á hæð, eða skrifstofuhúsnæði.
Í afgreiðslu ráðsins fól ráðið skipulagsfulltrúa að vinna að skipulagsbreytingu aðalskipulags þar sem ákvæði í aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 varðandi íbúðir á efri hæðum verði breytt til samræmis við skipulagsákvæði sem gildir á athafnasvæði AT-5.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst