Á morgun, sunnudag minnast Eyjafréttir og Eyjar.net merkra tímamóta, annars vegar 50 ára afmælis Eyjafrétta og tíu ára afmælis Eyjar.net og hins vegar opnun sameiginlegrar fréttasíðu, eyjafrettir/eyjar.net. Hefst með móttöku í Þekkingarsetri Vestmannaeyja kl. 13.00 á morgun, sunnudag og í kjölfar hennar er ráðstefna um stöðu héraðsfréttamiðla og er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra meðal fyrirlesara.
Aðrir fyrirlesarar eru Gunnar Gunnarsson – ritstjóri Austurfréttar og Austurgluggans, Kristján Már Unnarsson – Stöð 2, Guðmundur Sv. Hermannsson blaðamaður á Morgunblaðinu og fyrrum fréttastjóri, Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður og formaður Blaðamannafélagsins og Valgeir Örn Ragnarsson varafréttastjóri RÚV.
Lilja Dögg fjallar um mikilvægi héraðsfréttamiðla fyrir lýðræðislega umræðu í landinu. Þörf á staðbundnum fréttamiðlum jafnt og miðla á landsvísu og heimsvísu. Gunnar, sem kannað hefur öðrum betur stöðu fréttamiðla úti á landi kallar fyrirlestur sinn: Íslenskir staðarmiðlar í dag og (vonandi) til framtíðar. Kristján Már spyr: Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að hafa áhuga á fréttum frá Vestmannaeyjum? Hvaða erindi eiga þær til annarra en Eyjamanna? Guðmundur, kallar sitt erindi: Fréttaritarar og hlutverk þeirra í 150 ár. Sigríður Dögg ræðir mikilvægi blaðamennsku og öflugra fréttamiðla og Valgeir Örn fjallar um RÚV og svæðismiðla. Hlutverk RÚV í fréttaflutningi á landsbyggðinni og hvort grundvöllur sé fyrir samstarfi við svæðismiðlana.
Ráðstefnan er einstakt tækifæri fyrir þá sem áhuga hafa á fjölmiðlum, hlutverki þeirra og tímamótanna sem fjölmiðlar um allan heim standa frammi fyrir. Tímamóta sem hafa þrengt að fréttamiðlun en fela líka í sér tækifæri.
Móttakan og ráðstefnan er öllum opin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst