Ljóðabókin, Um yfirvegaðan ofsa eftir Þórhall Helga Barðason er fjölbreytt að að efnisvali, allt frá stuttum einlægum ástarljóðum og tileinkunum í langa absúrd prósa. Glens er ekki langt undan. Allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi. Hér er velt upp stórum sem smáum spurningum um lífið og tilveruna. Bókin kom út í sumar en Þórhallur segir að handritið hafi verið nær fullmótað og tilbúið til prentunar í nokkur ár þó það hafi tekið einhverjum breytingum. Örfá ljóð eru ný af nálinni en mest hefur vinnan farið í að fella út og skera niður.
„Ég hef skrifað ljóð frá barnsaldri en þó eftir 10 ára aldurinn því fyrr lærði ég ekki að lesa. Þegar bísnast var yfir því svaraði ég því gjarnan til að ég ætlaði að fá mér konu sem kynni að lesa,“ segir Þórhallur. „Ég skrifa af einhverri þörf en tek mig ekki alvarlega sem skáld. Fullbúin handrit hafa þann galla að stoppa alla sköpun svo að ég þarf að koma handritum frá mér á bók til að geta farið að skrifa aftur.“
Þórhallur er ánægður með söluna. „Hún hefur gengið óþarflega vel, ef svo má segja sem er auðvitað lúxus vandamál. Til eru eintök í Eymundson hér í Eyjum, á Húsavík, Akureyri, Austurstræti, Kringlunni og í Smáralind. Bókin er á leið í 2. prentun.“
Þórhallur Barðason, kennari við Tónlistarskólann hefur um margra ára skeið skrifað ljóð í hjáverkum og gaf út ljóðabók árið 2004 sem bar titilinn Þegar Árni opnaði búrið og fékk hún góða dóma, sú bók er fyrir löngu ófáanleg. Hann hélt áfram að yrkja og árið 2017 gaf hann út þrjú ljóðakver sem hann nefndi Frjáls ljóð. Fyrsta heitir Mar, númer tvö nefnist Bygging trjáhýsa í íslensku birki og hið þriðja ber nafnið Bleikir himnar.
Um kverin þrjú skrifar Sigurgeir Jónsson í Eyjafréttir 26. júní 2017: „Viðfangsefnið er af ýmsum toga en bernskuminningar eru áberandi í fyrsta kverinu. Svo koma upp ýmis álitamál í hinum tveimur og ástin er aldrei langt undan. Þar tekst höfundi oft einkar vel upp, t.d. í ljóðinu Til þín, sem er að finna í Bleikum himnum:
Ef greind væri mæld í grömmum
værir þú með þungan heila.
Ef bros væru mæld í amperum
mætti stórvirkja þitt geislandi bros.
Ef birta augans væri mæld í kertum
dyttir þú um blessaða birtuna.
Ef viðmót væri á Celsíus
þyrftir þú ekki að kynda neitt.
Svo leikur höfundur sér oft skemmtilega að orðum og hugmyndum; til að mynda í ljóðinu Kvika sem er að finna í Byggingu trjáhýsa í íslensku birki:
Það er ósköp stuttur í þér
kveikiþráðurinn.
Ef keppt væri í íþróttinni
ættir þú Evrópumet í uppstökki.
Sá sem þetta skrifar varð þess heiðurs aðnjótandi að höfundurinn bað hann að lesa handritið yfir og lagfæra villur ef einhverjar fyrirfyndust (og voru fáar) auk þess að koma með ábendingar um sitthvað sem mætti betur fara. Nú hafa óhefðbundin ljóð aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá skrifara; hann hefur verið meira fyrir hið stuðlaða form. En við lestur þessara þriggja handrita var eins og kviknaði á einhverri peru. Þessi lestur opnaði nýja og áður óþekkta vídd í hugskoti skrifara og hann er afskaplega ánægður með að Þingeyingurinn Þórhallur Barðason hafi látið verða af því að koma þessum hugverkum sínum á prent.”
Sæþór Vídó sá um hönnun og uppsetningu á Um yfirvegaðan ofsa og málverk á kápu er eftir Jóhannes Dagsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst