Nóttin var fremur tíðindalítil hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum. Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri segir aðspurður í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net að engin tilkynning um kynferðisbrot hafi komið á borð lögreglu enn sem komið er.
Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir í nótt og er einn í klefa vegna þess, en heilt yfir gistu fimm þjóðhátíðargestir fangageymslur. Tveir þeirra eru enn inni og bíða þess að fara í skýrslutöku.
Karl Gauti segir fá fíkniefnamál hafa komið upp. „Óvenju fá, ég man ekki eftir svona fáum málum.“ segir hann. Aðspurður um viðbúnað á þessu sviði segir hann að lögreglan sé með mikinn kraft í fíkniefnaleitinni, meðal annars tvo hunda.
Þá segir Karl Gauti að gerðar hafi verið upptækar tvær leikfangabyssur hjá tveimur gestum. Ástæða þess var að byssurnar eru mjög raunverulegar. Hann segir veðrið sé ekki enn til trafala. „Við sjáum hvernig þetta gengur og munum opna íþróttahúsin ef þurfa þykir. Það fauk eitt hvítt tjald í nótt sem ekki hafði verið hælað nægilega vel niður.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst