Meistaraflokkar kvenna í handbolta og fótbolta frá ÍBV voru að ferðast saman í rútu í dag þar sem bæði lið áttu útileiki. Fram kemur í tilkynningu á facebook-síðu ÍBV að þær hafi lent í árekstri á leiðinni heim. Enn fremur segir að sem betur fer sluppu allar vel, einhverjar aumar en annars allar óslasaðar.
Haft er eftir Guðjóni Ingvarssyni, vaktstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, á fréttavefnum mbl.is að árekstur hafi orðið á milli fólkbifreiðar og rútu við afleggjarann við Heiðmörk fyrir skömmu. Guðjón segir að ekki hafi verið alvarleg meiðsl á fólki, en að verið sé að skoða hvort að flytja þurfi tvo til þrjá á sjúkrahús. „Þetta slapp þokkalega,“ er haft eftir honum.
Þá segir á vef Vegagerðarinnnar að búið sé að loka Suðurlandsvegi við Heiðmerkurveg/Rauðhóla vegna umferðarslyssins. Þar segir að hjáleiðir séu um Nesjavallaveg á leið til Reykjavíkur og um hliðarveg til austurs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst