Síðdegis í dag hélt áhöfn Ísleifs VE úr heimahöfn. Ferðin markar tímamót þar sem siglt verður með skipið utan til niðurrifs. Eyjólfur Guðjónsson, skipstjóri segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að ferðinni sé heitið til Esbjerg í Danmörku. „Þetta eru um 1000 mílur. Við áætlum að vera fjóra sólarhringa á leiðinni.” segir hann.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að hirða allt heillegt úr skipinu, utan þess sem þarf til siglingarinnar út. Þegar þangað verður komið verður farið í að fjarlægja það sem eftir er úr skipinu og það fer svo í framhaldinu í niðurrif.
Skipið kom til Vinnslustöðvarinnar árið 2015, frá HB Granda. Það hét áður Ingunn AK og var smíðað í Chile árið 2000. Skráð lengd er 65,18 metrar, breidd 12,6 metrar og er hann rétt tæp 2000 brúttótonn. Vélin er MAK 5870 hestöfl.
Að sögn Eyjólfs voru gerð mistök í smíðinni. Skipið var talsvert þyngra en systurskipin, og úr varð að það þurfti að lengja skipið vegna þess, svo að það héldi stöðuleika. Hér að neðan má sjá myndband frá því í dag. Myndbandið er tekið um borð í Ísleif sem og þegar haldið var af stað í þessa síðustu siglingu. Fleiri myndir frá því dag má sjá hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst