Ekki reynist marktækur munur á fylgi H-lista og D-lista í nýrri könnun Maskínu sem unnin er fyrir Eyjafréttir. Spurt var: Ef kosið yrði til bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
28,4% þeirra sem svöruðu segjast munu kjósa H-listann og 28% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. 13,1% sögðust kjósa Eyjalistann. 30% svarenda voru óákveðnir.
Ef rýnt er í hvaða kjósendur gætu helst hugsað sér að kjósa framboðin í Eyjum má sjá að stærsta bakland H-listans er í Miðflokks-kjósendum, en 25,6% þeirra sem ætla að kjósa H-Listann ætla að kjósa Miðflokkinn í komandi Alþingiskosningum. 38% þeirra sem ætla að kjósa Eyjalistann eru þeir sem ætla að kjósa Samfylkinguna.
Óákveðnir eru 30%, og eru konur í miklum meirihluta. Stærsti hópur óákveðinna er þeir sem ætla að kjósa Miðflokkinn í Alþingiskosningum, eða um 30%. Næst stærsti hópur óákveðinna eru þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða 16%.
Niðurstöður sem birtar voru í gær: Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur stærstir í Eyjum
Markmið og framkvæmd
Könnun þessi er gerð af Maskínu fyrir Eyjasýn. Könnunin var lögð fyrir íbúa Vestmannaeyja, 18 ára og eldri sem eru með skráð símanúmer annars vegar og fyrir þá sem voru skráðir í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá hins vegar.
Könnunin var lögð fyrir á netinu, meðlimir í Þjóðgátt Maskínu fengu boðspóst og áminningar með tölvupósti og SMS skilaboðum en í Þjóðskrárúrtaki með skráð símanúmer fengu þátttökuboð og áminningar með SMS skilaboðum.
Við úrvinnslu voru svörin vigtuð til samræmis við mannfjöldatölur Hagstofunnar um kyn og aldur, til að svarhópurinn endurspegli sem best lýðfræðilega samsetningu íbúa í Vestmannaeyjum. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun. Könnunin fór fram frá 6. til 11. nóvember 2024 og voru svarendur 306 talsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst