Bergur VE og Vestmannaey VE, hafa fiskað vel að undanförnu. Túrar skipanna hafa verið góðir og stuttir. Bæði skipin lönduðu fullfermi í Grindavík á laugardaginn og síðan lönduðu þau aftur fullfermi í Eyjum á mánudaginn.
Rætt var við skipstjórana á síðu Síldarvinnslunnar og eru þeir spurðir nánar út í veiðina. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, var mjög sáttur.
„Á laugardaginn lönduðum við í Grindavík og það var mest þorskur, aðeins ýsa með. Sá afli var allur tekinn á Sannleiksstöðum. Eftir löndun var strax haldið til veiða á ný. Eitt hol var tekið á Sannleiksstöðum en þar var of mikill þorskur í aflanum. Þá færðum við okkur á Holshraun og þar fékkst ýsa, dálítill þorskur og langa með. Síðan var landað í Eyjum í gær (í fyrradag). Það hefur verið fínasta veiði og svei mér þá ef veiðin er ekki að aukast á ýmsum stöðum,” sagði Jón.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, var einnig sáttur við aflabrögðin. „Það var mest þorskur sem við lönduðum í Grindavík á laugardaginn en hann fékkst suður af Þorlákshöfn. Síðan var haldið beint á Holshraun og og þar fékkst fínasti afli; ýsa, langa og þorskur. Þarna var góð veiði í bongóblíðu. Þetta voru tveir stuttir túrar og það er svo sannarlega ekki yfir neinu að kvarta. Hér um borð eru menn bara brattir,” sagði Birgir Þór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst