„Núna í lok apríl náðum við þeim áfanga í saltfiskvinnslu VSV að hafa unnið úr 5000 tonnum af hráefni á yfirstandandi vetrarvertíð. Það er að langstærstum hluta þorskur sem er saltaður fyrir Portúgalsmarkað en einnig er hluti af þorsknum sem fer til Spánar. Að auki vinnum við ufsa til söltunar en hann endar á mörkuðum í Suður–Ameríku og í Karíbahafi.” Þetta segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn.
Hann segir jafnframt að vel hafi gengið hjá þeim í vetur, bæði veiðarnar og vinnslan í landi. „Starfsfólk okkar vinnur langa daga á þessum árstíma og leggur hart að sér, það er lykillinn að því að ná þessum árangri og afköstum,” segir hann og bætir við:
„Nú erum við á lokaspetti vertíðarinnar, höldum áfram út maí-mánuð en sumarstopp í saltfiskvinnslunni hefst í byrjun júní. Þá fær fólkið í landvinnslunni frí fram að næstu törn sem verður makrílvinnsla í sumar. Markaðir fyrir saltaðar afurðir hafa verið ágætir og eftirspurn talsverð. Þó eru blikur á lofti og óvissa í efnahagsmálum í Suður–Evrópu, sem og víða annarsstaðar.”
Í tilefni af 5000 tonna áfanganum var kaffihlaðborðið í kaffistofu VSV sérstaklega veglegt, segir að endingu í fréttinni á Vinnslustöðvarvefnum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst