Kristín Klara Óskarsdóttir og Lilja Kristín Svansdóttir, leikmenn ÍBV hafa síðustu daga leikið með U16-ára landsliði Íslands í knattspyrnu á þróunarmóti UEFA í Eistlandi.
Á vefsíðu ÍBV segir að þær hafi báðar leikið í öllum leikjunum þremur og spiluðu sínar stöður virkilega vel, Lilja var mest í hægri bakvarðarstöðunni en Kristín lék einnig þar, auk þess að spila inni á miðjunni.
Í fyrsta leiknum gegn Slóvakíu vann Ísland 0:3 sigur en þar hóf Kristín leikinn og lék 45 mínútur en Lilja kom inn á í hálfleik og leysti Kristínu af í bakverðinum.
Í næsta leik var andstæðingurinn Eistland en þar vann Ísland 6:0 sigur, Lilja hóf leikinn og lék hann allan í hægri bakverðinum en Kristín kom inn eftir rétt rúman klukkutíma og lék inni í miðjunni til loka leiksins.
Í síðasta leiknum sem fram fór í gær komu Kristín og Lilja báðar inn á í seinni hálfleiknum en staðan var 1:1 í hálfleik, leiknum lauk svo með 1:3 sigri Íslands. Ísland vann því alla leiki sína á þróunarmótinu og léku stelpurnar okkar vel, segir í umfjölluninni á vef ÍBV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst