Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur nýlega skapast á samskiptamiðlum um ástand Kirkjugarðsins tel ég nauðsynlegt að árétta eftirfarandi.
Vorið og sumarbyrjun hafa verið óvanalega hlý og sprettan eftir því. Það starfsfólk sem mun annast sláttinn þetta sumarið verður ekki við vinnu fyrr en að grunnskóla loknum í byrjun júní og því hefur sláttur ekki geta hafist enn. Á sama tíma hafa aðstandendur nýtt sér veðurblíðuna til að dytta að og það hefur aukið magn úrgangs. Vegna skorts á starfsfólki hefur ekki verið möguleiki að bregðast við því við þeim hætti sem ég hefði viljað. Allt stendur þetta þó til bóta.
Þeir sem fylgjast vel með hafa orðið varir við sérstakan duftkersgarð sem nú er í ræktun í suðaustur horni garðsins. Það er von mín að hann verði tilbúinn til notkunar í lok sumars. Einnig er snjallvæðing hafin í garðinum en fyrsti slátturóbotinn mun hefja slátt í suðurhluta garðsins í næstu viku. Nýjar flokkunarstöðvar verða settar upp í sumar á amk þremur stöðum í garðinum sem ætti að einfalda utanumhald úrgangs frá garðinum.
Núverandi ástand í garðinum er í engu samræmi við mínar eigin væntingar og er því sú óánægja eðlileg sem deilt hefur verið á samskiptamiðlum. Ég vil hins vegar góðfúslega benda þeim á sem er umhugað um garðinn okkar að ég er boðinn og búinn til samtals um hvað eina sem betur má fara. Bæði má hafa samband í síma 8495754 og á netfangið gisli@landakirkja.is. Með von um gott samtal í framtíðinni.
Gísli Stefánsson
Framkvæmdastjóri Landakirkju og Kirkjugarðs Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst