ÍBV eru úr leik í Mjólkurbikarnum eftir að þeir máttu þola svekkjandi 0-1 tap á heimavelli gegn Val í 8-liða úrslitum. Leikurinn byrjaði mjög rólega en eftir um 16. mínútna leik fengu Valsmenn hornspyrnu. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók spyrnuna á nærsvæðið og Hólmar Örn Eyjólfsson kláraði af miklu öryggi með góðum skalla. Hvorugt liðið náði að skapa sér hættuleg færi það sem af lifði fyrri hálfleiksins þannig að Valsmenn leiddu 0-1 í hálfleik.
Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og fengu fín færi til að jafna leikinn, Vicente Valor fyrst í dauðafæri á 63. mínútu en varnarmaður Vals kom í veg fyrir að boltinn færi á markið. Á 65. mínútu fékk Sverrir Páll svo færi til að skora en boltinn virtist fara í höndina á varnarmanni Vals en dómari leiksins dæmdi ekkert. Eyjamenn vildu svo aftur fá víti á 70. mínútu þegar Víðir Þorvarðarson kom með góða fyrirgjöf inn á vítateig Vals og aftur virtist boltinn fara í höndina á varnarmanni Vals en dómarinn dæmdi ekki neitt. Eyjamenn sitja því eftir með sárt ennið á meðan Valsmenn eru komnir í undanúrslit Mjólkurbikarsins en það mætti segja að Eyjamenn hafi verið rændir sigrinum.
Næsti leikur ÍBV er mánudaginn 23. júní gegn Aftureldingu. Leikurinn fer fram á Þórsvelli kl. 18:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst