Skýlið, Friðarhafnarskýlið og nú N1 við Friðarhöfn á sér áratuga langa sögu sem griðastaður sjómanna, starfsfólks fyrirtækja í grenndinni, bæjarbúa sem finnst gaman að virða fyrir sér lífið við höfnina og ferðamenn sem finnst gott að kíkja við og slaka á. Nú ráða þar ríkjum, Kristján Georgsson og Ágúst Halldórsson sem sjá um allt sé í lagi. Í mörg horn er að líta því umfangið er meira en flesta grunar. Kristján stýrir verslun og starfsmannahaldi en Ágúst er viðskiptastjóri og sér um þjónustu við skipaflotann og fyrirtækin. Ágúst byrjaði 1. febrúar 1990 á Básaskersbryggju og þá hét þetta Olíufélagið hf. Essomerkið var á Tankanum, merki sem lengi var framan á ÍBV-búningunum. „Þegar karlarnir urðu Íslandsmeistarar 1997 og 1998 og einnig bikarmeistarar 1998. N1 hefur haldið þessu áfram og styrkt íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum mjög myndarlega. Fyrr í sumar var skrifað undir veglegan samning við ÍBV knattsyrnu karla til næstu þriggja ára. Já, við höfum stutt íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum mjög myndarlega. Í dag er N1 merki framaná búningum ÍBV í knattspyrnu,“ segir Ágúst.
Fjölbreytt þjónusta
„Við erum með viðskipti t.d. við Vinnslustöðina, Ísfélagið, Laxey og mörg önnur fyrirtæki hér í bæ sem kalla á mjög fjölbreytta þjónustu. Við erum með olíuvörur, bensínusölu. Með stóra birgðatanka og dælur fyrir smábátana. Mörg fyrirtæki eru með olíutanka frá N1 sem fyllt er á eftir þörfum þeirra. Við erum með lager inni á Eiði þar sem við höfum smurolíur og aðrar vörur. „Stöðin mín er ný þjónusta í N1 appinu sem gerir þér kleift að velja þína eigin N1 stöð og fá þar lægsta eldsneytisverð okkar. Þú setur appið inn í símann þinn, velur stöð og þar færðu bensín á lægsta verði sem N1 býður upp á hverju sinni. Getur munað yfir 20 krónum á líter. Færð afsláttinn um leið og þú borgar með appinu. Þetta er nýtt og hefur mælst mjög vel fyrir. Valið er frjálst og gildir um allt land. Þú þarft ekki lengur að eltast við verðið eða keyra framhjá stöðinni sem hentar þér best. Nú færð þú að ráða hvort sem stöðin er nálægt heimili, vinnu, bústað eða bara þar sem kaffið er best. Ræsir dælu með símanum, greiðir og punktarnir safnast. Ef þú vilt skipta um stöð þá geturðu gert það á 30 daga fresti.“
Mikið vöruúrval
Ágúst segir vöruúrval mikið hjá N1, hvort sem er eldsneyti, fljótandi eldsneyti og smurolíur. „Við erum líka að selja í bíla, perur, þurrkur, rafgeyma og allt hvað þetta heitir. Líka vinnufatnað sem fyrirtækin geta fengið merktan. Þetta er helsta starfsemin og svo er Kiddi með veitingarnar og ekki má gleyma litlu ríkisstjórninni sem fer með ferðina milli ellefu og tólf á morgnana. Leggur línurnar, leysir heimsmálin og bara gaman af því. Það eru margir sem koma við á hverjum degi og í hugum Eyjamanna er þetta enn þá Skýlið en í kerfinu er þetta N1 Friðarhöfn,“ sagði Ágúst að endingu.
Er ánægður á nýjum stað
„Ég er símsmiður, vann hjá Grétari Ómars hjá Símanum. Var á sjó en þegar peyinn minn, Georg greindist einhverfur fór ég í land. Sá eftir lífinu á sjónum en svona er þetta bara. Vann hjá ÍBV, uppi í Heildsölu hjá Ingólfi og Krissa, á Fiskmarkaðnum, í Geisla og svo hér,“ segir Kiddi og er ánægður á nýjum stað. Fetar í fótspor Kela og Svönu og Jóa í Skýlinu og f leiri sem komið hafa að rekstrinum. „Þetta er ennþá Skýlið í hugum Eyjamanna og stendur á traustum grunni og nóg að gera. Því miður er Ásta, sem hér stóð í stafni í mörg ár nýlega hætt. Hún var á margan hátt táknmynd Skýlisins. Reksturinn tengist því mikla lífi hér við höfnina, sjómönnunum, starfsfólki Vinnslustöðvarinnar og Ísfélags og nú Laxeyjar. Það eru svo fastakúnnarnir, m.a. litla ríkisstjórnin sem mætir á hverjum degi og lætur til sín taka í stóru málunum.“ N1 í Vestmannaeyjum er stór þjónustumiðstöð, með gott úrval veitinga, verkfæra, olíur og annað fyrir bílinn, vinnuföt og m.fl. „Þannig að þetta er heljar umsetning og nú hefur Droppið bæst við. Hingað koma pakkar sem fólk nær í til okkar og mikið að gera. Því fylgir nýr kúnnahópur og hefur margfaldast undanfarið ár,“ segir Kiddi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst