Þann 20. júlí sl. voru 15 ár frá því Landeyjahöfn var tekin í notkun. Þann dag 2010 sigldi Herjólfur III fyrstu ferðina frá Eyjum til Landeyjahafnar með gesti og fjölda Eyjamanna í blíðskaparveðri. Var nokkur mannfjöldi saman kominn við höfnina til fagna komu skipsins. Þar á meðal ráðherrar, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og fleiri sem fluttu ræður af þessu tilefni. Herjólfur hóf siglingar samkvæmt áætlun daginn eftir.
Ekki stóðst Landeyjahöfn væntingar en var samt mikil bylting í samgöngum milli lands og Eyja. Framburður vegna gossins í Eyjafjallajökli var til vandræða og sá gamli og trausti Herjólfur III hentaði illa til siglinga í Landeyjahöfn. Gosinu lauk en áfram var sandburður til vandræða og höfnin viðkvæmari fyrir ölduhæð er áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Var höfnin suma vetur lokuð vikum og mánuðum saman.
Það var svo 21. júní 2019 að ný ferja, Herjólfur IV var tekin í notkun og hefur reynst mjög vel. Ennþá hafa náttúruöflin þó lokaorðið. Því kynntumst við á nýliðinni þjóðhátíð þegar fella varð niður ferð vegna aðstæðna í Landeyjahöfn. Það kom sér illa fyrir þá sem treystu á að komast til og frá Eyjum síðdegis laugardaginn 2. ágúst.
Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um stöðu hafnarinnar því fjöldi viðburða hér í Eyjum yfir sumarið á allt sitt undir tryggum samgöngum. Ekki síst Þjóðhátíð. Er ekki kominn tími á að Landeyjahöfn verði gerð að heilsárshöfn eins og upphaflega var lagt upp með? Líta má á að fyrsta áfanga sé lokið og komið að þeim næsta. Hvað þarf til veit ég ekki en vaxandi umsvif í Vestmannaeyjum kalla á hafnarframkvæmdir, ekki bara í Eyjum heldur líka í Landeyjahöfn. Aðrar hafnir við Suðurströndina, eins og Þorlákshöfn og Grindavíkurhöfn, voru ekki byggðar á einum degi, frekar en Róm, en áfram skal haldið.
Ekki lofa afskipti nýrrar ríkisstjórnar góðu fyrir Vestmannaeyjar. Ætli tekjur hins opinbera af atvinnustarfsemi í Eyjum fari ekki langt með að borga næsta áfanga í gerð Landeyjahafnar? Það má alveg heita leiðrétting og eða réttlæti til handa Vestmannaeyjum sem mala þjóðinni gull.
Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst