Kvennalið ÍBV vann góðan 5-2 sigur á botnliði Aftureldingar þegar liðin mættust í 14. umferð Lengjudeildar kvenna á Hásteinsvelli í kvöld. Leikurinn byrjaði frekar rólega en heimakonur brutu ísinn á 21. mínútu þegar Allison Lowrey fylgdi á eftir sínum eigin skalla eftir góða fyrirgjöf Helenu Heklu Hlynsdóttur. Eyjakonur tvöfölduðu forystuna á 39. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak Olgu Sevcovu en hún fékk boltann vinstra megin og smellti boltanum snyrtilega upp í hornið. Staðan 2-0 í hálfleik.
ÍBV sótti mikið í seinni hálfleik en um miðjan hálfleikinn bætti Olga Sevcova við sínu öðru marki með góðu skoti. Hin unga og efnilega Erla Hrönn Unnarsdóttir kom ÍBV svo í 4-0 tíu mínútum síðar en þetta var hennar fyrsta mark fyrir ÍBV í deildinni. Afturelding klóraði í bakkann með því að skora tvö mörk á tveggja mínútna kafla eftir vandræðagang í vörn Eyjakvenna og staðan því orðin 4-2. Það var svo Erna Sólveig Davíðsdóttir sem innsiglaði 5-2 sigur ÍBV þegar hún fylgdi á eftir skoti Erlu Hrannar Unnarsdóttur.
Eftir leikinn eru Eyjakonur komnar með 34 stig, þremur stigum meira en HK sem eru í öðru sæti deildarinnar, ÍBV á þó leik til góða. Afturelding er áfram á botninum með 3 stig. ÍBV á næst útileik við KR sunnudaginn 10. ágúst kl. 18:00 en þetta er frestaður leikur úr 13. umferð.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst