Um síðustu helgi fór fram minningarmótið Úlli Open 2025 í Vestmannaeyjum. Mótið er haldið til minningar um Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, Úlla pípara. Er þetta í sjötta sinn sem mótið er haldið.
Frá upphafi hefur Krabbavörn í Vestmannaeyjum notið ágóðans sem safnast, en allur ágóði af mótinu rennur óskiptur til þessa mikilvæga félags. Mótið er styrkt af mörgum góðum aðilum með vinningum og fjárframlögum.
Að sögn Bjarna Ólafs Guðmundssonar, eins af skipuleggjendum mótsins kemur langstærsti hluti styrkjanna ár hvert frá einstaklingum og fyrirtækjum uppi á landi. „Grindvíkingar hafa verið mjög duglegir að mæta til Eyja á mótið,” segir hann.
Aðspurður um hvað búið sé að halda þetta mót í mörg ár, segir Bjarni Ólafur að Úlli hafi látist 22. september 2019. „Fyrsta mótið héldum við í ágúst 2020 og hefur verið haldið árlega síðan.”
Hann segir að alls hafi safnast 5.000.000,- á þessum mótum, en ágóðinn af mótinu um síðustu helgi hljóðaði upp á 1.020.000,- sem eins og áður segir rennur óskipt til Krabbavarnar í Vestmannaeyjum. Stjórn Krabbavarnar vill koma á framfæri kæru þakklæti til aðstandenda mótsins og taka fram að slík framlög séu félaginu afskaplega mikilvæg.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst