Í dag er alþjóðlegur dagur læsis. Á þessum degi minnumst við mikilvægi læsis og hlutverki þess í að skapa það samfélag sem við viljum búa í, samfélag sem er réttlátt með jöfnum tækifærum til frama fyrir börn og ungmenni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Að mati UNESCO skorti að minnsta kosti 739 milljónir ungmenna og fullorðinna um allan heim enn grunnfærni í læsi árið 2024. Fjögur af hverjum 10 börnum á heimsvísu ná ekki lágmarksfærni í lestri og voru 272 milljónir barna og unglinga ekki í skóla árið 2023.
Án læsis skerðast möguleikar barna til frama og þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Læsi er leið barna og ungmenna til að móttaka og greina upplýsingar og er þannig undirstaðan í allri menntun.
„Læsi er vopn gegn fátækt og stéttaskiptingu og mikilvægt jöfnunartæki þegar kemur að tækifærum í lífinu. Á Íslandi sjáum við bakslag í læsi og lesskilingi meðal barna, einkum drengja. Við þessari þróun þarf að sporna og er það mér hjartans mál að gera það í minni ráðherratíð,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst